Tjarnaklukka (Agabus uliginosus)

Distribution

Evrópa frá Frakklandi og Ítalíu í suðri norður til Bretlandseyja og sunnanverðra Norðurlanda og austur í miðbik Síberíu; Danmörk, SA-Noregur, sunnanverð Svíþjóð og S-Finnland.

Ísland: Einn fundarstaður, Hálsar við Djúpavog.

Life styles

Á Hálsum finnst tjarnaklukka í allnokkrum grunnum og lífríkum tjörnum. Í nágrannalöndunum heldur hún sig einnig í grunnum pollum, jafnvel svo grunnum að þeir kunna að þorna upp, einnig í pollum, í flóum og laufskógum. Talið er að fullorðnar bjöllur leggist í vetrardvala og að lirfur þroskist síðla vors og snemma sumars. Tjarnaklukka er rándýr.

In General

Það er athyglisvert að hérlendis hefur tjarnaklukka hvergi fundist nema á Hálsum yst á nesinu sem aðskilur Hamarsfjörð og Berufjörð, skammt vestan byggðar í Djúpavogi, í um 160 m hæð yfir sjávarmáli. Tilvist tjarnaklukku þar var fyrst staðfest árið 1935, þegar skordýrasafnaranum Geir Gígja var vísað á staðinn. Heimamenn höfðu orðið varir við óvenju litlar brunnklukkur í tjörnum þar uppi á hálsinum. Lék þá

grunur á að tegundin hefði borist þangað skömmu áður. Engin rök voru þó fyrir þeirri tilgátu. Næst var hugað að tjarnaklukkunum í september 1970 er Hálfdán Björnsson, bóndi og náttúrufræðingur á Kvískerjum í Öræfum, gerði sér ferð þangað. Hann sá að tegundin var þar enn til staðar. Hálfdán mætti enn á staðinn í júní 1990, ásamt Erling Ólafssyni og Ara Guðjónssyni, heimamanni á Djúpavogi. Tjarnaklukkur fundust þá í allnokkrum tjörnum á svæðinu og var töluvert af þeim ásamt þrem öðrum tegundum vatnabjallna, brunnklukku (Agabus bipustulatus), fjallaklukku (Colymbetes dolabratus) og lækjaklukku (Hydroporus nigrita). Þrátt fyrir að tjarnaklukka hafist vel við á Hálsum hefur hennar ekki orðið vart annars staðar á landinu til þessa. Reyndar er tegundin hér á nyrstu mörkum útbreiðslu sinnar ef horft er til útbreiðslu hennar á hinum Norðurlöndunum.

Í tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna náttúruverndaráætlunar 2009–2013 var lagt til að vernda búsvæði þriggja tegunda smádýra. Slíkt var nýbreytni í náttúruvernd hér á landi en í nágrannalöndum okkar hefur í langan tíma þótt sjálfsagt að smádýr njóti ámóta verndar og tegundir spendýra, fugla og plantna. Þar sem óraunhæft er að friðlýsa tegundir smádýra, sem fæstir þekkja og kunna að varast að valda tjóni, er vænlegast til árangurs að vernda mikilvægt búsvæði þeirra á stöðum sem skipta tegundina miklu máli.

Tjarnaklukkan en ein þriggja tegunda sem komu til álita í þessum fyrsta áfanga til verndunar smádýra. Það er skemmst frá því að segja að heimamenn á Djúpavogi tóku tillögunni um verndarsvæði tjarnarklukku á Hálsum afar vel enda hefur sveitafélagið verið til fyrirmyndar, þegar horft er til virðingar fyrir náttúru heimabyggðar. Gengið var frá friðlýsingunni 10. febrúar 2011.

Hálsar liggja í um 160 m hæð yfir sjávarmáli. Þar er fjöldi smátjarna af ýmsu tagi sem iða af lífi og eru þær verðugt rannsóknarefni. Sumar eru mjög gróðurríkar en minni gróður í öðrum. Landið er einungis nýtt til beitar og hefur friðlýsing ekki áhrif á slíka nýtingu. Aðsteðjandi ógnir við lífríki tjarnaklukkunnar eru í sjálfu sér litlar. Friðun svæðisins varð því auðveldlega við komið og árekstralaust. Tjarnaklukkan hentaði því vel til að ýta úr vör þessari nýbreytni í náttúruvernd, þ.e. að horfa til þess mikilvæga hóps lífvera sem smádýrin eru.

Flestir landsmenn þekkja brunnklukkur en fáir hafa tjarnaklukkur augum litið. Þetta eru náskyldar tegundir sömu ættkvíslar (Agabus) og líkar í útliti. Tjarnaklukka er töluvert smávaxnari, um 6 mm á lengd samanborðið við 10 mm langar brunnklukkur, og svört gljáandi skelin er öllu kúptari en á brunnklukku.

Distribution map

Images

References

Erling Ólafsson 2011. Tjarnaklukkan á Hálsum við Djúpavog. Múlaþing 2011: 60–63.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

María Harðardóttir, Erling Ólafsson, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Sigmundur Einarsson, Sigurður H. Magnússon, Starri Heiðmarsson & Jón Gunnar Ottósson 2008. Verndun svæða, vistgerða og tegunda. Tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna náttúruverndaráætlunar 2009–2013. Náttúrufræðistofnun Íslands, Skýrsla NÍ 08008. 85 bls.

Author

Erling Ólafsson 15. febrúar 2011, 16. október 2013

Biota

Tegund (Species)
Tjarnaklukka (Agabus uliginosus)