Húsvinur (Latridius minutus)

Distribution

Útbreiddur um heim allan.

Ísland: Algengur í byggð um land allt.

Life styles

Húsvinur er bundinn mannabyggð og finnst í allskyns húsbyggingum, þar sem mygla stendur honum til boða. Húsvinur lifir á sveppum, einkum af því tagi sem við köllum myglu, og étur bæði sveppþræðina og gróin. Hann er því einstaklega algengur í heyhlöðum og gripahúsum. Auk þess að vera innan húsveggja sést hann á sumrin í miklum fjölda utan á hlöðuveggjum, í ónýtum heylufsum undir hlöðuveggjum og undir lausum hlutum sem þar liggja. Bjöllurnar safnast gjarnan fyrir í gluggum gripahúsanna enda fleygar vel og sækja í birtuna á flugi sínu. Húsvinur finnst einnig í híbýlum, einkum gömlum húsum, þar sem saggi er í viði, einnig í nýbyggingum uppi í ófrágengnum rjáfrum, þar sem oft vill safnast rakaþétting og skapast heppilegir vaxtarstaðir fyrir sveppþræði. Fullorðnar bjöllur finnast allt árið um kring.

Bjöllurnar verpa eggjum sínum innan um sveppþræðina. Lirfurnar éta sveppina eins og fullorðnu bjöllurnar. Húsvinur æxlast hratt jafnvel við hitastig vel undir stofuhita. Við 17–18°C klekjast egg á 5–6 dögum, lirfur ná fullum vexti á 12–17 dögum og púpa sig. Bjöllur skríða svo úr púpum 6–7 dögum síðar. Tegundin nær því að þroska 10–12 kynslóðir á ári. Tímgun er þar af leiðandi hröð og fjöldinn verður mikill á skömmum tíma.

In General

Húsvinur er án efa algengastur bjallna í heyi. Af honum er almennt ekki skaði, hvorki í híbýlum né peningshúsum, því hann nærist alfarið á myglusveppum. Þó má hafa í huga að bjöllurnar geta dreift sveppagróum með saur sínum og ef mikið verður af þeim valda þær vissulega óþrifum. Húsvinur dreifist auðveldlega með heyflutningum auk þess að hann flýgur frjálslega í sumarblíðu og getur þannig borist víða með vindum. Getur einnig flust með hvaða varningi sem er. Hann er ein fárra tegunda smádýra, sem borist hafa fyrir slysni af mannavöldum til Surtseyjar. Á sínum tíma settist hann þar að tímabundið í sagga í fúnum viði gamla Pálsbæjar, aðsetri vísindamanna í eynni.

Húsvinur (2 mm) er agnarsmár og illsýnilegur. Það er einkum vegna fjöldans sem hann vekur á sér athygli. Hann er rauðbrúnn til svartur á lit, hálsskjöldur ívið mjórri en skjaldvængir og sérkennilega mótaðir; breiðastir fremst, niðurhvelfdir innan við jaðarinn þannig að helst minnir á rennustein og með holu inni á miðju. Fálmarar nokkuð langir, þráðlaga, þrír fremstu liðir stærstir og mynda kylfu.

Distribution map

References

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963–1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.

Author

Erling Ólafsson 1. júní 2011, 22. maí 2017

Biota

Tegund (Species)
Húsvinur (Latridius minutus)