Hunangsbý (Apis mellifera)

Hunangsbý - Apis mellifera
Picture: Erling Ólafsson
Hunangsbý safnar frjókorum á Krít. ©EÓ
Hunangsbý - Apis mellifera
Picture: Erling Ólafsson
Hunangsbý, þerna. 15 mm. ©EÓ
Hunangsbý - Apis mellifera
Picture: Erling Ólafsson
Hunangsbý í smárabreiðu á Sólheimum í Grímsnesi. ©EÓ

Útbreiðsla

Um heim allan nema í harðneskju heimskautanna í norðri og suðri.

Ísland: Það er óviðeigandi að tala um útbreiðslu hunangsbýs á Íslandi þar sem það er alfarið haldið sem hvert annað húsdýr. Býflugnaræktun á sér stað í ýmsum landshlutum. Saga býflugnaræktar hér á landi og árangur er rakinn á vefsíðunni Býflugur.is. Er þar sagt frá fyrstu tilraunum árin 1936 og 1938 og því lýst hvernig áhuginn hefur aukist mjög á síðustu árum og árangur sífellt orðið betri með batnandi veðurfari, aukinni reynslu og færni ræktenda og leitinni að stofnum til innflutnings sem best henta við íslenskar aðstæður.

Lífshættir

Samfélag býflugna samanstendur af einni frjórri drottningu, mörgum þúsundum ófrjórra þerna, en fjöldi þeirra er breytilegur eftir árstímum, og færri þúsundum frjórra karldýra sem koma fram tímabundið. Drottningin eina sér alfarið um að verpa og eru allar flugurnar í búinu afkvæmi hennar. Klakhólfaplötur gera þernurnar úr vaxi og forma þær á þeim sexstrend hólf. Þau eru ýmist notuð til að verpa í þau eggjum, einu í hvert, eða til að geyma í þeim næringarforðann sem þernurnar draga í búið, þ.e. blómasafann sem þær breyta í hunang og frjókorn.

Í þar til gerðum sáðhirslum geymir drottningin mikinn fjölda sáðfruma. Hún skammtar eggjum sínum sáðfrumur til að frjóvga þau áður en hún skilar þeim frá sér nema til standi að framleiða karla. Þá er frjóvgun látin liggja á milli hluta því karlar verða til úr ófrjóvguðum eggjum og eru þeir því einlitna, þ.e. eingetnir synir mæðra sinna. Það eru mismunandi gerðir af kyngeninu og ef genasamsætan (allele), þ.e. kyngenin á samsvarandi stað á samstæðum litningum, eru mismunandi gerðar verður býflugan kvenkyns. Ef það gerist hins vegar að tvö eins gen mynda samstæðuna verður býflugan tvílitna karl en slíkir eru ekki á vetur setjandi. Býin finna slík fyrirbæri fljótlega eftir að lirfur af því tagi klekjast úr eggjum og farga þeim. Tvílitna karlar fá því aldrei tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Lirfur eru fyrstu þrjá dagana aldar á eðalfæðu sem þernur framleiða í sérstökum kirtlum í höfðinu, svokölluðu drottningarhunangi (royal jelly). Síðan er skipt yfir í hunang og frjókorn til að þroska þernur, en lirfur valdar til að verða drottningar eru áfram nærðar á drottningarhunangi til loka. Þegar lirfan er fullvaxin eftir nokkur hamskipti spinnur hún um sig silkihjúp í klakhólfinu og púpar sig í honum.

Starf þernanna í búinu er hlutverkaskipt. Þernur þurfa að vinna sig upp í þann virðingarsess að fá að fljúga út í leiðangra til að heimsækja blóm og afla fanga fyrir búið sitt. Ungar þernur eru með virka kirtla til að framleiða drottningarhunang og sjá þær um að fæða minnstu lirfurnar og sinna auk þess þrifum í búinu. Þegar dregur úr virkni kirtlanna taka þessar þernur til við að að byggja vaxplötur. Þær vinna sig síðan áfram upp virðingarstigann en í næsta þrepi fá þær það hlutverk að taka við blómasafa og frjókornum frá aðvífandi þernum í efsta þrepinu, þ.e. þeim sem sjá um að heimsækja blómin og draga björgina í bú, og sjá þær auk þess um varnir búsins. Þegar þerna hefur náð efsta þrepi virðingarstigans sér hún einvörðungu um að leita fanga og bera að búinu. Hæstvirtu þernurnar vinna síðan saman að því að finna gjöfula akra og blómlendi og gefa stöllum sínum skilaboð með háþróuðu táknmáli sem þær túlka í formi dans. Þerna sem fundið hefur gjöful mið gefur með dansinum til kynna í hvaða átt skuli leita og hversu langt, einnig hversu gjöfull akurinn er. Allar Apis tegundir dansa, hver og ein með sinn einkennandi dans. Þetta er með ólíkindum fyrirbæri.

Þegar nýjar drottningar koma úr púpum yfirgefa þær samfélagið sitt til að leita sér óskyldra ástmögra frá öðrum samfélögum. Drottningarnar ungu eru fjöllyndar, makast við marga karla og fylla sáðhirslur sínar af sáðfrumum áður en þær skila sér aftur heim. Karlarnir lifa hins vegar ekki mökin af. Nýmakaðar drottningar safna síðan um sig herskara þerna úr gamla samfélaginu sínu og hverfa á braut í stórum svermi til að stofna til bús á nýjum stað sem einhverjar þernanna hafa áður valið. Þar er svo strax hafist handa við að byggja vaxplötur og ferlið endurtekur sig. Þessir býflugnasvermar eru athyglisverð og alkunn fyrirbæri. Fyrir býflugnabændur er það mikilvægt að fanga slíka sverma og koma þeim fyrir í þar til gerðum kassa til að virkja nýja samfélagið sér til hagsbóta.

Í kaldari löndum stöðvast starfsemin á veturna en þegar hitinn fer undir 10°C hætta býflugurnar að fljúga út og koma sér fyrir í hnapp inni í miðju búinu. Drottningin mikilvæga er vernduð inni í miðjum hnappinum og þernurnar sem umlykja hana halda á henni hæfilegum hita með því að titra. Þetta er því iðandi kös sem reynir eftir fremsta megni að halda hitanum í 27°C í byrjun vetrar og hækka hann í 34°C þegar að því kemur að sú gamla fari að verpa eggjum á ný. Þernurnar skipta um stöður í hnappnum til að tryggja að kuldinn herji jafnt á alla einstaklingana en hitastigið yst í hnappnum helst um 8–9°C. Þernurnar stýra hitastiginu í hnappnum með því að þjappa sér saman eða losa um eftir þörfum. Býflugurnar hafa safnað forða fyrir veturinn og sækja í hann orku til að geta framleitt hitann í hnappnum. Forðaþörfin fer eftir lengd vetrar og hversu þungbær hann reynist. Það er mikilvægt fyrir býflugnabændur að átta sig á þessum þörfum og gæta þess að búunum sé tryggt vetrarskjól og að þernurnar hafi nægan orkuforða til að lifa veturinn af. Byrjendur í bransanum ná ekki alltaf tökum á þessu og kunna því að missa búskapinn úr höndum sér.

Afurðir býflugnaræktar eru tvenns konar. Hið eftirsótta og verðmæta hunang er flókið efni sem býflugurnar búa til úr sætum blómasafa og frjókornum sem þær móta sérstaklega og varðveita í hólfum í vaxplötunum. Vaxið framleiða þernur hins vegar á ákveðnu þroskastigi, eins og áður var lýst, úr sérstökum kirtlum á afturbolnum. Bývaxið nýta menn einnig í ýmsum tilgangi. Þá ber að ítreka eitt allra mikilvægasta hlutverk býflugnanna, þ.e. að bera frjó á milli blóma en uppskera mikils fjölda nytjaplantna er algjörlega undir starfsemi býflugna komin.

Almennt

Af u.þ.b. 20 þúsund tegundum býflugna í heiminum (ættin Apidae) eru sjö viðurkenndar tegundir af ættkvíslinni Apis, þ.e. eiginlegar hunangsbýflugur. Það er þeim sameiginlegt að mynda fjölær samfélög og safna hunangsforða til að sjá fjölliðuðum samfélögum fyrir orkugjafa yfir óvirk tímabil, þ.e. vetur þar sem slíkir ríkja á jörðinni. Tegundirnar skiptast í fjölmargar undirtegundir. Hunangsbýflugur eru taldar eiga uppruna að rekja til S- og SA-Asíu, nema hunangsbýið eina sanna Apis mellifera en uppruni þess er talinn vera í hitabelti A-Afríku. Bú frumstæðari tegunda eru tiltölulega einföld að gerð, t.d. ein vaxplata, á meðan yngri og þróaðri tegundir byggja mun flóknari bú úr mörgum vaxplötum.

Flestar tegundanna hafa verið nýttar af mönnum í gegnum tíðina en aðeins tvær af ungu tegundunum verið virkjaðar sem nytjadýr. Þar kemur hunangsbýið til sögunnar sem eitt mikilvægasta húsdýr sem maðurinn heldur. Það er ekki bara mikilvægt vegna hunangsframleiðslunnar heldur einnig sem einn stórvirkasti frævarinn á ávaxtaplantekrum sem sjá mannkyni öllu fyrir ómissandi fæðu. Menn hafa ræktað frá ómunatíð, alla vega aftur til þess tíma er pýramídarnir voru byggðir í tíð faraóanna egypsku. Það er ein tveggja tegunda, og sú mikilvægasta, sem hefur verið flutt langa veg út fyrir upprunaleg heimkynni sín til flestra heimshorna þar sem ríkjandi veðurfar hentar. En óhagstæðara loftslagi er smám saman mætt með því að þróa sífellt harðgerari stofna. Hunangsbýið Apis mellifera er gjarnan kennt við Evrópu (European honey bee) þó þar sér frjálslega með upprunann farið. Hin tegundin er Apis cerana indica en hún hefur ekki viðlíka útbreiðslu.

Af hunangsbýi eru margar undirtegundir og fjölmargir stofnar sem hafa verið þróaðir eftir aðstæðum á hverjum stað. Útlitsmunur getur verið umtalsverður.

Menn fluttu hunangsbý með sér til Ameríku. Þar höfðu þeir ekki fulla stjórn á flugunum og þær æddu á undan mönnum til vesturs fyrir eigið tilstilli þegar svermar tóku sig upp með nýjum drottningum og hurfu á braut. Það var þó fyrir tilstuðlan manna að þær komust yfir Klettafjöllin og til S-Ameríku. Þar suður frá, nánar tiltekið í Brasilíu, fór fram kynblöndun evrópsku býflugnanna við afrískan stofn sem fluttur var inn til kynbóta. Sú tilraun fór úr böndum og niðurstaðan varð afar árásarhneigð býfluga sem hefur gengið undir heitinu killer bee. Þessar nýju býflugur dugðu ver til hunangsframleiðslu en voru öflugri frævarar og höfðu sterkari mótstöðu gegn sýkingum. En hér voru á ferð lífshættulegar flugur sem gátu skapað stórhættu þegar svermar tóku sig upp og duttu niður á nýjum slóðum og herjuðu á menn og skepnur. Býfluga þessi barst smám saman til N-Ameríku en þar setur vetrarveðrátta henni útbreiðslumörk. Frekari tilraunir hafa verið gerðar með blandanir til að draga úr þessum afleita eiginleika þeirra grimmu og er mönnum að takast vel upp með það.

Hunangsbý er að mörgu leyti áþekkt humlum sem flestum eru vel kunnar. Þær eru þó öllu fíngerðari og mjóslegnari. Bolurinn er mikið loðinn, alsettur gulum hárum en ekki röndóttur eins og þekktustu humlurnar. Skelin er brúnleit, þó meira eða minna gulleit framan til á afturbol, einnig á hliðum bolsins og neðra borði. Breytileiki er umtalsverður þegar mismunandi stofnar eru bornir saman.

Kvendýr, þ.e. drottningar og þernur, hafa stungugadd sem notaður er til að verja búin. Stofnarnir eru misjafnlega árásargjarnir, flestar býflugur eru þó nokkurn veginn til friðs. Það er óskemmtilegt að verða fyrir árás býflugna. Þær fórna lífi sínu þegar þær leggja til atlögu. Gaddurinn situr eftir í stungusárinu og eiturkirtillinn dregst út úr flugunni ef hún er slegin frá. Hann getur svo haldið áfram að dæla eitri um gaddinn þó hann hafi losnað frá flugunni. Ofnæmisviðbrögð við eiturvökvanum geta reynst lífshættuleg.

Hunangsbý (Apis mellifera) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Hunangsbý (Apis mellifera) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Býflugur.is. http://www.byflugur.is/index.php?site=7&menuid=3 [skoðað 16.5.2012]

Erling Ólafsson 1979. Um geitunga (Hymenoptera, Vespidae) og skyldar gaddvespur á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 49: 27–40.

Wikipedia. Honey bee. http://en.wikipedia.org/wiki/Honey_bee [skoðað 16.5.2012]

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |