Garðhumla (Bombus hortorum)

Distribution

Evrópa og Asía norðan fjallgarða Himalaya og Tíbets, N-Afríka, Arabía. Innflutt til Nýja-Sjálands.

Ísland: Suðvestanvert landið. Höfuðborgarsvæðið, Reykjanesbær, Akranes, Stykkishólmur; á Suðurlandi að Laugarvatni, Hvolsvelli og A-Landeyjum, einnig Heimaey.

Life styles

Garðhumla heldur sig einvörðungu við mannabyggð, í þéttbýli eða við sumarbústaði þar sem útlendar plöntur sem henni henta eru ræktaðar. Hún hefur mjög langa tungu sem gerir hana háða djúpum blómum, hefur t.d. dálæti á sporasóleyjum (Aquilegia). Drottningar vakna af vetrardvala um mánaðamót apríl/maí og sækja frjókorn og safa í víðirekla á fyrsta skeiðinu. Garðhumla er samfélagsskordýr sem stofnar til bús. Búi sínu velur hún stað í holu í jörðu, inni í garðskúr, kjallara, eða holum húsvegg svo dæmi séu tekin. Lítið er vitað um þroskaferil búanna, en fyrstu drottningar af haustkynslóð fara að sjást í seinni hluta ágúst og þær síðustu um miðjan október. Búin eru í jörð.

In General

Garðhumla nam hér land á 6. áratug 20. aldar en sú fyrsta fannst í Reykjavík 1959. Utan Reykjavíkur fannst hún fyrst í Hafnarfirði árið 1965. Henni vegnaði fljótt vel á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún festi sig tryggilega í sessi og varð nokkuð áberandi í görðum. Smám saman tók hún að dreifast út frá borgarsvæðinu. Mestri útbreiðslu hafði garðhumla náð um 1980, en það sumar fannst hún fyrst utan höfuðborgarsvæðisins, á Selfossi, Laugarvatni, Hvolsvelli og í Austur-Landeyjum, í Kjós, á Akranesi og í Stykkishólmi. Í kjölfarið tók útbreiðslan að dragast saman á ný og í lok 9. áratugarins var garðhumla orðin mjög fágæt. Var þá jafnvel talið að hún hefði dáið út. Á þessum árum kringum aldamótin fannst hún þó stöku sinnum á jaðarsvæðum utan höfuðborgarinnar, t.d. í Keflavík, á Stokkseyri og Þingvöllum. Það var svo ekki fyrr en 2009 að garðhumla fór að finnast í Reykjavík á ný þar sem henni hefur fjölgað síðan verulega með hverju árinu.

Líkleg skýring á þessum hremmingum garðhumlu þótti erfið samkeppni við annan landnema, þ.e. húshumlu (Bombus lucorum), sem fannst fyrst í Reykjavík og Heiðmörk 1979. Henni fjölgaði hratt og hún lagði undir sig landið á skömmum tíma. Það er ljóst að húshumla afétur garðhumlu sem er mun sérhæfðari við fæðunám. Með sína löngu tungu er garðhumla háð djúpum blómum. Löng tungan hentar ekki til að draga upp safa úr grunnum blómum. Húshumla hefur styttri tungu en getur samt nýtt sér safafulla djúpa spora með því að svindla og bíta á þá gat utan frá til að ná safanum. Garðhumlan kemur því að tómum sporum.

Garðhumla er afar stór tegund. Hún þótti því í fyrstu uggvænleg mjög og var lítill aufúsugestur á íslenskum heimilum þegar hún slæddist inn um opna glugga. Flestar humlutegundirnar má þekkja á litmynstrinu. Þrjár þeirra eru svart- og gulröndóttar. Reyndar hafa garðhumla og móhumla (Bombus jonellus), sama randamynstur, þ.e. frambol með mynstrið talið framan frá gult-svart-gult og afturbol með mynstrið gult-svart-hvítt. Aftari gula rönd frambols og gul rönd afturbols renna því saman í mikið gult miðbik en miðbik húshumlu er aftur á móti svart. Garðhumla er miklum mun stærri en móhumla þ.e. þegar drottningar eru bornar saman við drottningar og þernur við þernur. Þernur garðhumlu kunna að vera að svipaðri stærð og drottningar móhumlu. Þá verða tegundirnar einna helst aðgreindar með því að skoða lögun höfuðs, en það nær miklu lengra niður fyrir augun á garðhumlu en móhumlu til samræmis við langa tunguna

Distribution map

References

ARKive - Images of life on earth. Small garden bumble bee (Bombus hortorum) http://www.arkive.org/small-garden-bumblebee/bombus-hortorum/range-and-habitat.html [skoðað 7.8.2009].

Donovan, B.J. & P. Macfarlane 1971. A nest of Bombus hortorum (Hymenoptera) in a fur coat in New Zealand. N. Z. Entomol. 5: 83–84.

Prys-Jones, O.E., Erling Ólafsson & Kristján Kristjánsson 1981. The Icelandic Bumble bee fauna (Bombus Latr., Apidae) and its distributional ecology. Journal of Apicultural Research 20: 189–197.

Author

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 27. mars 2013, 26. apríl 2017

Biota

Tegund (Species)
Garðhumla (Bombus hortorum)