Ryðhumla (Bombus pascuorum)

Ryðhumla - Bombus pascuorum
Picture: Erling Ólafsson

Ryðhumla (Bombus pascuorum), drottning. 17 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa til nyrstu héraða og ósamfelld útbreiðsla austur eftir Asíu, sunnan til í Síberíu vestanverðri og austur í Yakutsk; Tyrkland, Íran, Kazakhstan, Kína.

Ísland: Tveir fundarstaðir, Hveragerði og Akureyri.

Lífshættir

Kjörlendi ryðhumlu hérlendis er væntanlega ómótað enn sem komið er. Hún hefur fundist í görðum og ræktunarstöðvum í Hveragerði og á ræktuðu útivistarsvæði í Kjarnaskógi við Akureyri og í görðum inni í bænum. Líkast til mun hún kjósa þess háttar aðstæður til að byrja með, þ.e. í byggð, einkum ræktuðum görðum með plöntum og runnum gjöfulum á blómasafa. Toppar af ættkvíslinni Lonicera hafa aðdráttarafl. Ryðhumla gerir sér ekki bú í holum í jörðu heldur á yfirborðinu, t.d. í grasi og mosa, svo og í sprekahrúgum og rotnandi trjádrumbastöflum. Búin eru tiltölulega fáliðuð og hýsa í mesta lagi um 100 þernur. Í Noregi fljúga drottningar frá miðjum apríl og fram í miðjan október er ný kynslóð leggst í vetrardvala. Þernur sjást frá fyrri hluta maí og fram í október en karldýr frá seinni hluta júní og einnig fram í október.

Almennt

Humludrottning fannst í ræktunarstöð í Hveragerði 17. maí 2010 og var þá talið að um rauðhumlu (Bombus hypnorum) væri að ræða sem einnig er nýr landnemi. Það vakti reyndar athygli að þessi drottning var frábrugðin þekktum rauðhumlum að því leyti að afturendinn var ryðrauður eins og frambolurinn en ekki hvítur eins og á hefðbundnum rauðhumlum. Að öðru leyti var litmynstrið það sama, þ.e. ryðrauður frambolur og biksvartur afturbolur framan við ryðrauða afturendann. Mynd af þessari humlu vakti athygli erlendra býfræðinga sem bentu á að sennilega væri um að ræða dökkt litarafbrigði ryðhumlu. Slík afbrigði finnast í vestanverðum Noregi og norðanverðri Skandinavíu, sbr. undirtegundirnar sparreanus og bicolor. Annars eru ryðhumlur ryðrauðar yfir allan bolinn, þó oftast dekkri og með svörtu háraívafi framan til á afturbol. Við smásjárskoðun komu svo í ljós ýmis smáatriði sem aðskildu þetta eintak frá Hveragerði greinilega frá öðrum rauðhumlum.

Við þessi tíðindi var grennslast frekar fyrir um stöðu tegundarinnar og kom þá í ljós að hún var orðin allalgeng í görðum í Hveragerði hefur hún sést þar um nokkurra ára bil. Auk þess barst tilkynning um rauðar humlur í Kjarnaskógi sunnan Akureyrar. Eintök voru sótt þangað til frekari skoðunar 27. maí og reyndist um ryðhumlur að ræða. Síðan hefur tegundinni vaxið ásmegin í görðum á Akureyri

Ryðhumla er meðalstór, bústin og loðin humla. Hún er ekki röndótt heldur mjög áþekk rauðhumlu. Frambolur er einlitur, ryðrauður en afturbolur svartur nema ryðrauður aftast og þekkist tegundin frá rauðhumlu á því.

Ryðhumla (Bombus pascuorum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Ryðhumla (Bombus pascuorum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Løken, A. 1973. Studies on Scandinavian Bumble Bees (Hymenoptera, Apidae). Norsk ent. Tidsskr. 20: 1–218.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |