Útselur (Halichoerus grypus)

Distribution

Útselir eru algengir og útbreiddir á kaldtempruðum svæðum um norðanvert Atlantshaf.  Tegundin lifir og kæpir við strendur Íslands og sést á öllum landsfjórðungum en útselslátur eru aðallega í Breiðafirði og einnig eru umfangsmikil látur á Ströndum og í Öræfum. Eftir 1940 virðist sem útselur hafi dreifst víðar meðfram ströndinni og sest að í nýjum látrum (Hauksson, 2007) en samhliða fækkun á útsel síðustu áratugi hefur útbreiðslan dregist verulega saman.

Nánar er fjallað um útbreiðslu landsels í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar Íslands nr. 56, Selalátur við strendur Íslands og í kortasjá.

Population

Erfðafræðilegar rannsóknir benda til þess að íslenski útselsstofninn sé einangraður (Frie 2009).

Nýjasta mat á stærð íslenska útselstofnsins nær til ársins 2017 (Sandra M. Granquist og Erlingur Hauksson 2019). Í því er jafnframt leiðrétt áður birt stofnmat fyrir árið 1982, sem virðist hafa verið misritað í niðurstöðum fyrri ára. Mat á stærð útselsstofnsins var, samkvæmt þessum nýju upplýsingum, 9.200 dýr árið 1982. Stofninn virðist hafa vaxið næstu árin og var metinn rúmlega 10.500 dýr árið 1990. Eftir það fækkaði útsel og hélst stofnstærðin í um 5.000-6.000 dýrum frá 1998-2009 (fjórar talningar). Árið 2012 var stofnstærðin metin 4.200 dýr en samkvæmt nýju stofnstærðarmati sem byggt er á talningum árið 2017 var íslenski útselstofninn þá kominn í 6.200 dýr. 

Life styles

Útselur leggst í látur í febrúar til apríl og hefur þar feldskipti. Eftir það fara dýrin í ætisleit fram að kæpingu sem fer fram að haustlagi. Kópauppeldi tekur um þrjár til fjórar vikur. Urtan heldur sig til sjós nærri staðnum þar sem kópurinn er og kemur til hans á flóði og nærir. Þegar urturnar hafa yfirgefið kópana hefst fengitíminn en þá takast brimlarnir á um að makast við urturnar. Útselurinn er fjölkvænisdýr og hver brimill ver og makast við nokkrar urtur. Eftir fengitímann halda selirnir út á sjó og leita ekki aftur til lands fyrr en við feldskipti í febrúar.

Description

Útselur er talsvert stærri en landselur og er lögun höfuðsins lengri og flatari, oft líkt við hrosshaus. Við Ísland verða útselir yfirleitt ekki stærri en 2,4 m að lengd og geta vegið allt að 300kg. Litur er breytilegur, yfirleitt eru þeir gráir með dökka díla á baki og hliðum. Brimlarnir eru meiri um sig að framanverðu og með hærra og lengra trýni en urturnar. Útselir geta orðið yfir 40 ára gamlir. Urturnar verða kynþroska um fjögurra ára og kæpa því fyrst 5 ára og árlega uppfrá því en brimlar verða kynþroska um fimm ára en aðeins þeir stóru og sterku fá aðgang að urtum á fengitíma.

Shortlist

VU (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd: 16,5 ár (IUCN). Tímabil sem mat miðast við eru þrjár kynslóðir (49,5 ár). Einungis eru til upplýsingar um stofnstærð fyrir tímabilið 1982–2017. Á þessum 35 árum fækkaði útsel um 32% eða 1,1% á ári. Framreiknaðar stofnbreytingar miðað við sömu áframhaldandi árlega fækkun til ársins 2031 myndi leiða til 42% fækkunar á þremur kynslóðum. Útselur flokkast því sem tegund í nokkurri hættu (VU) samkvæmt forsendum A4b í viðmiðum IUCN. 

VU A4 jafngildir staðfesta eða áætlaða fækkun í stofni  ≥30% á þremur kynslóðum þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa hugsanlega ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á (A4) athugun, mati og ályktun samkvæmt (b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni (IUCN).

Útselur var í hættu (EN) á válista sem birtur var 2018 en hefur verið uppfærður sökum fjölgunar frá síðustu talningu (2012) og leiðréttingar á áður birtum tölum um fyrstu talningu (1982).

Global position

Útselir eru útbreiddir og algengir á flestum útbreiðslusvæðum sínum. Heildarstofn tegundarinnar hefur verið áætlaður um 630 þúsund og fer víða vaxandi (utan Íslands). Útselur er því ekki talinn í útrýmingarhættu (LC) á heimslista IUCN. Íslenski stofninn er 1% af heildarstofni tegundarinnar.

Threats

Ýmsir þættir hafa áhrif á stofnstærð útsels en algengasta dánarorsök útsela á Íslandi er talin vera drukknun í veiðarfærum. Verulega hefur dregið úr hefðbundnum útselsveiðum (haustkópaveiðar) undanfarin ár. Umhverfisbreytingar á borð við hlýnun sjávar, sem hefur áhrif á fæðuframboð, gæti einnig haft áhrif á stofnstærð útsela. Fæðuskortur seinkar kynþroska hjá urtum og þar með viðkomu stofnsins. Einnig ber nokkuð á því að urturnar yfirgefi kópa í vondu árferði. Vegna þess hve viðkvæmir útselir eru fyrir truflun má gera ráð fyrir að röskun búsvæða hafi neikvæð áhrif á viðgang stofnsins. Því miður er lítið vitað um sjúkdóma eða mengun í útselum hér við land.

Protection

Útselir nutu til skamms tíma afar lítillar verndar hér á landi en ákvæði villidýralaga nr. 64/1994 ná ekki til sela (eða hvala). Grunnlög um selveiðar eru Tilskipun um veiði á Íslandi frá 1849, með breytingum frá 1990, sem leggja bann við skotveiðum á landsel eða útsel á fjörðum eða víkum þar sem látur eru eða lagnir, nær en 900 metra frá þeim. Selir á Breiðafirði eru verndaðir gegn skotveiðum með sérlögum um selaskot á Breiðafirði og uppidráp, nr. 30/1925. Lög nr. 29/1937 kveða hins vegar á um útrýmingu sela úr Húnaósi. Í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði eru ákvæði um ófriðun sels í 11. gr. laganna, þar sem m.a. er heimilt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að ófriða selalátur í eða við veiðivatn eða fiskihverfi. Árið 2019 var bætt við ákvæði í sömu lagagrein þar sem ráðherra getur með reglugerð sett reglur um selveiðar, m.a. um skráningu selveiða og að banna eða takmarka selveiðar á íslensku forráðasvæði ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar. Reglugerð um bann við selveiðum nr 1100/2019 var sett þann 11. desember 2019 og tók þegar gildi. Samkvæmt þeirri reglugerð eru allar selveiðar óheimilar á íslensku forráðasvæði (sjó, ám og vötnum) nema að fengnu sérstöku leyfi frá Fiskistofu. Veitt leyfi sé til eins árs og aðeins til eigin nytja og háð skráningu og skýrsluskilum um sókn og afla.

Images

References

Bowen, D. 2016. Halichoerus grypus. The IUCN Red List of Threatened Species 2016: e.T9660A45226042. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2016-1.RLTS.T9660A45226042.en. Downloaded on 08 March 2018.

Erlingur Hauksson, Halldór Gunnar Ólafsson og Sandra Granquist 2014. Talning útselskópa úr lofti haustið 2012. Veiðimálastofnun, VMST/14050. Veiðimálastofnun, Reykjavík. 15 s. https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/utgafa-veidimalastofnunar/talning-utselskopa-ur-lofti-haustid-2012 [heimsótt 6.3.2018].

Frie, A.K. 2009. Distribution and diversity of grey seals haplotypes in the North Atlantic and the Baltic Sea. Presented to the 15th meeting of NAMMCO Scientific Committee, Qeqertarsuaq, Greenland, 11-14 April 2008. Unpublished. 10pp.

Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir, Erlingur Hauksson, Guðmundur Guðmundsson og Ester Rut Unnsteinsdóttir 2018. Selalátur við strendur Íslands. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 56. 20 s. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_56.pdf

Sandra M. Granquist & Erlingur Hauksson 2019.  Aerial census of the Icelandic grey seal (Halichoerus grypus) population in 2017: Pup  production, population estimate, trends and current status. Útselstalning 2017: Stofnstærðarmat, sveiflur og ástand stofns. Hafrannsóknastofnun, Reykjavík. 19 s. https://www.hafogvatn.is/static/files/hv2019-02.pdf

Author

Ester Rut Unnsteinsdóttir október 2018, febrúar 2019, janúar 2020.

Biota

Tegund (Species)
Útselur (Halichoerus grypus)

English Summary

The Halichoerus grypus population in Iceland was estimated 6.200 individuals in 2017, corresponding to 32% since 1982 (no estimates before 1982). An estimated, projected decline for full three generations (1982–2031) match ≥42% decline. This is compatible to the IUCN criteria of VU A4b: An observed, estimated, inferred, projected or suspected population reduction where the time period must include both the past and the future, and where the causes of reduction may not have ceased OR may not be understood OR may not be reversible (A4). Based on (b) an index of abundance appropriate to the taxon (IUCN). The Halichoerus grypus population in Iceland was listed as ENA4b in 2018 but has been downlisted due to an increase in population size since 2012.