Búrhvalur (Physeter macrocephalus)

Distribution

Búrhvalurinn er útbreiddur um öll úthöf jarðar og er dreifingin breytileg eftir aldri og kyni. Einungis tarfar koma á íslensk hafsvæði og sjást þeir allt umhverfis landið, nær eingöngu á sumrin. Þeir eru taldir tilheyra einum sameiginlegum stofni Norður Atlantshafs.

Population

Búrhvalur er um margt sérstök tegund sem erfitt er að meta samkvæmt kerfi IUCN. Tegundin finnst í öllum heimshöfum. Búrhvalir lifa í fjölskylduhjörðum í hlýjum sjó, sem tarfarnir yfirgefa við kynþroska og ferðast árstíðabundið til kaldari svæða í fæðuleit. Einungis tarfar koma á íslensk hafsvæði á sumrin. Ekki virðist mikill erfðabreytileiki innan meginhafa og er gengið út frá því að búrhvalir Norður Atlantshafs tilheyri einum stofni. Búrhvalir geta kafað dýpra og lengur en aðrir hvalir og er því er vandkvæðum bundið að meta fjölda þeirra út frá hefðbundnum hvalatalningum (þarf að leiðrétta fyrir köfun). Samkvæmt síðustu talningum voru um 11 þúsund búrhvalir á hafsvæðinu kringum Ísland, með ofangreindum fyrirvara.

Life styles

Búrhvalir geta orðið 60-70 ára gamlir. Kýr verða kynþroska 7-13 ára og tarfar 18-21 árs, æxlun er árstíðabundin og á norðurslóðum er fengitími í mars til maí. Meðganga er 14-15 mánuðir og nærast kálfarnir eingöngu á móðurmjólkinni fyrsta árið en eru á spena í allt að tvö ár. Kýr bera einum kálfi að jafnaði þriðja til sjötta hvert ár, mismunandi eftir aldri kúnna. Dæmi eru um að kýr hjálpist að við umönnun kálfa og leyfa jafnvel kálfum annarra kúa að nærast á mjólk úr sínum spena. Búrhvalir eru félagslynd dýr og er samsetning hjarða og félagskerfi mikilvægt fyrir viðgang tegundarinnar. Helsta fæða búrhvala eru stórir og meðalstórir smokkfiskar en auk þess eru ýmsar fiskitegundir algengar á matseðli búrhvala við Ísland.

Description

Búrhvalurinn er eina stórhvelið meðal tannhvala og eini núlifandi fulltrúi búrhvalaættarinnar. Mikill kynjamunur er á stærð, sem er óvenjulegt meðal hvala. Tarfarnir geta náð yfir 18 metra lengd og yfir 40 tonn en kýrnar allt að 12 metrar að lengd og 13 tonn að þyngd. Höfuðið er fyrirferðamikið, allt að 35% af heildarlengd dýrsins. Ummál þess svipað og miðbik líkamans, að horninu, sem er lítið og staðsett aftarlega. Blástursholan er framarlega á höfði en vinstra megin frá miðju. Því myndar blásturinn gufustrók sem stefnir fram og á hlið. Neðri kjálkinn er mjór og eru í honum 20-26 tannapör en engar tennur eru í efri kjálka. Á bakinu aftan við hornið er röð nokkurra hnúða. Bægslin eru þykk og áralaga. Sporblaðkan er stór og þríhyrningslaga með grunnri miðjurauf.

Shortlist

DD (gögn vantar)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
DD VU VU

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 27,3 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir.

Þótt engar vísbendingar séu um fækkun síðan talningar hófust (1987) né síðustu 3 kynslóðir (82 ár) er líklegt að Norður Atlantshafsstofninn sé enn talsvert minni en var fyrir tíma hvalveiða. Vegna margvíslegrar óvissu um þennan stofn er ekki unnt að meta ástand hans við Ísland að sinni. Því er ekki hægt að útiloka krítíska fækkun. Því er búrhvalur skráður í flokkinn gögn vantar (DD) samkvæmt skilgreiningum IUCN.

Global position

Samkvæmt Heimslista og Evrópulista IUCN flokkast búrhvalur í nokkurri hættu (VU) en svæðislistar Grænlands og Noregs skrá hann í flokkinn á ekki við (NA). Tegundin er skráð í viðauka I a lista CITES og viðauka I og viðauka II á lista CMS.

Threats

Áður fyrr voru búrhvalir veiddir í stórum stíl og náðu veiðarnar líklega hámarki um miðbik síðustu aldar þegar um 25.000 dýr voru veidd árlega. Síðustu áratugi hafa nokkrir tugir búrhvala verið veiddir árlega í Asíu en annars eru núverandi veiðar ekki taldar ógna tegundinni. Búrhvalir eiga það til að ræna fiski af línubátum og festast þá í veiðarfærum útsjávarveiðiskipa en það getur reynst þeim hættulegt. Fundist hafa nokkuð há gildi eiturefna í vefjum búrhvala en ekki er vitað hvort og þá hvaða áhrif þau hafa á viðgang tegundarinnar. Hávaðamengun gæti einnig haft neikvæð áhrif á lífslíkur búrhvala en það hefur ekki verið staðfest. Viðkoma er hæg vegna þess hve kýr bera sjaldan og kynþroskaaldur hár. Plastmengun í hafi gæti ógnað tilvist búrhvala en undanfarin ár hafa borist fréttir af strönduðum hvölum með mikið magn af plasti í meltingarfærum.

Images

References

Droplaug Ólafsdóttir og Gísli A. Víkingsson (2004). Búrhvalur. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavik, bls. 186-191.

Taylor, B.L., Baird, R., Barlow, J., Dawson, S.M., Ford, J., Mead, J.G., Notarbartolo di Sciara, G., Wade, P. & Pitman, R.L. 2008. Physeter macrocephalus. The IUCN Red List of Threatened Species 2008: e.T41755A10554884. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2008.RLTS.T41755A10554884.en. Downloaded on 11 May 2018.

Author

Ester Rut Unnsteinsdóttir október 2018

Biota

Tegund (Species)
Búrhvalur (Physeter macrocephalus)

English Summary

The Physeter macrocephalus population is estimated to be 11,000 individuals but only males are in Icelandic waters as seasonal migratory species. Despite no indication of a decline since first counts were conducted in 1987 it is likely that the North Atlantic population was far more abundant before the period of intensive whaling, peaking in the 1950´s. Due to uncertainty and methodology problems in population estimates, critical decline cannot be ruled out. Therefore, the species is listed as data deficient (DD) according to IUCN criteria. The species is on Appendix I of CITES and Appendices I and II of CMS.