Sandreyður (Balaenoptera borealis)

Distribution

Sandreyður er farhvalur, útbreidd í öllum heimshöfum en fer þó ekki norður fyrir ísrönd heimskautasvæðanna. Árstíðabundnar göngur eru óreglulegar en talið er að dýrin haldi til í heittempruðum eða hitabeltissvæðum á veturna. Yfir sumarið leita sandreyðar í kaldari sjó til fæðunáms og sjást helst við Ísland síðla sumars og fram á haust. Greint er á milli tveggja undirtegunda og er sú sem er á norðurhveli nefnd Balaenoptera borealis borealis.

Population

Þremur stofnum sandreyðar hefur verið lýst í Norður Atlantshafi og teljast þær íslensku til svokallaðs Íslands-Grænlandssundsstofns. Sandreyður kemur yfirleitt ekki á íslensk hafsvæði fyrr en eftir mitt sumar og dvelur lengur fram á haustið en aðrir reyðarhvalir. Hefðbundnar hvalatalningar, sem fram fara á miðju sumri, gefa því í besta falli lágmarksmat á stofnstærð sandreyða. Samkvæmt talningum 1989 og 1995 var fjöldinn metinn um 10 þúsund dýr og má líta á það sem lágmarks stofnstærð Íslands-Grænlandssundsstofns. Sandreyður telst því nokkuð algeng og engar vísbendingar eru um fækkun í stofninum þó gögn séu nokkuð takmarkaðri en um aðra reyðarhvali (Cattanach o.fl. 1993, Gunnlaugsson o.fl. 2004, Pike o.fl. 2011).

Life styles

Sandreyðar geta orðið 60 ára gamlar en mikill breytileiki er á aldri við kynþroska eftir hafsvæðum og tímum, allt frá fimm og upp í fjórtán ár. Æxlunarhringurinn er tvö ár, fengitími er í upphafi árs en burður í lok árs, eftir 11-12 mánaða meðgöngu. Kálfar eru á spena í 6-7 mánuði en algengt virðist að um þrjú ár líði á milli kálfa hjá hverri kú. Sandreyður er, ásamt langreyðum, hraðsyndust allra hvala og geta þær náð allt að 40 km hraða á klukkustund. Meirihluti fæðu sandreyðar eru sviflæg krabbadýr en hún er eina reyðartegundin sem beitir bæði sundsíun og gleypiaðferð. Sundsíun felst í að synda með opið ginið í gegnum fæðubletti svo sjórinn síast jafnóðum í gegnum skíðin. Með gleypiaðferð, sem beitt er við át á stærri svifi og smáfiski, er ein munnfylli síuð í einu.

Description

Sandreyður er þriðja stærsta tegund reyðarhvalaættarinnar, um 14-15 metrar að lengd og yfir 20 tonn að þyngd. Þær eru rennilegar að vexti, líkt og langreyður, en lítið eitt gildari á búkinn. Liturinn er grár og örlítið ljósari á kvið og er líkaminn alsettur ljósleitum blettum eftir ásætur. Hausinn er frammjór, um 25% af heildarlengd dýrsins og kjölur á ofanverðu höfði. Skíðin vaxa úr efri gómi og eru svört eða dökkgrá með fíngerðum ljósari hárum að innanverðu. Kviðfellingar eru mismargar en ná ekki nema rétt aftur fyrir bægslin, sem eru fremur smá. Hornið er aftur á móti stórt, allt að 60cm hátt og aftursveigt. Blásturinn er mjór og getur staðið allt að 3 metra lóðrétt upp í loftið.

Shortlist

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC EN EN

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 23,3 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir.

Samkvæmt talningum 1989 og 1995 var fjöldinn metinn um 10 þúsund dýr og má líta á það sem lágmarks stofnstærð Mið-Norður Atlantshafsstofns. Engar vísbendingar eru um fækkun í stofninum frá þessum tíma en gögn eru takmarkaðri en um aðra reyðarhvali (Cattanach o.fl. 1993, Gunnlaugsson o.fl. 2004, Pike o.fl. 2011).

Global position

Sandreyður er í hættu (EN) á bæði Evrópu- og heimsválista IUCN, sérstaklega vegna hægrar viðkomu á suðurhveli og við vesturströnd Evrópu. Allir stofnar hafa þó vaxið á 70 ára tímabili, sem spannar þrjár kynslóðir, og tegundin á mörkum þess að teljast í nokkurri hættu (VU) og í hættu (EN) á nýjasta heimslistanum (Cooke et al. 2018). Tegundin er ekki listuð (NA) á norska válistanum en flokkast sem gögn vantar (DD) á válista Grænlands. Sandreyður er skráð í viðauka I á lista CITES um alþjóðaverslun með hvalaafurðir. Staða Íslands-Grænlandssundsstofnsins virðist sterkari en annarra stofna í Norður-Atlantshafi.

Threats

Talið er að hvalveiðar á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar hafi gengið nærri sandreyðarstofnum Norður-Atlantshafs og síðar um víða veröld. Veiðar undanfarna áratugi eru þó ekki taldar ógna tegundinni, að minnsta kosti ekki Íslands-Grænlandssundstofninum. Ekki er algengt að sandreyðar drepist vegna árekstra við skip og lenda þær sjaldnar í veiðarfærum en margir aðrir hvalir enda er meginútbreiðslan fjarri ströndum. Helstu ógnir sem steðja að sandreyðum í Norður Atlantshafi eru þættir sem almennt ógna lífríkinu svo sem efnamengun, hljóðmengun, súrnun sjávar og hnattræn hlýnun. Áhrif þessara þátta á sandreyðar til lengri eða skemmri tíma eru þó illa þekkt.

Images

References

Cattanach, K.L., Sigurjonsson, J., Buckland, J. and Gunnlaugsson, T. 1993. Sei whale abundance in the North Atlantic, estimated from NASS-87 and NASS-89 data. Reports of the International Whaling Commission 43: 315-321.

Cooke, J.G. 2018. Balaenoptera borealis. The IUCN Red List of Threatened Species 2018: e.T2475A130482064. Downloaded on 15 November 2018.

Droplaug Ólafsdóttir og Gísli A. Víkingsson (2004). Sandreyður. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavik, bls. 212-217.

Gunnlaugsson, T., Víkingsson, G.A. and Pike, D.G. 2004. Comparison of sighting rates from NASS and other dedicated cetacean vessel effort around Iceland during 1982 to 2003. International Whaling Commission Scientific Committee doc. SC/56/O5.

Pike DG, Gunnlaugsson T, Víkingsson GA, Mikkelsen B (2011) Estimates of the abundance of sei whales (Balaenoptera borealis) from the NASS Icelandic and Faroese ship surveys conducted in 2001 and 2007. NAMMCO SC/18/AESP/07. 19 bls

Author

Ester Rut Unnsteinsdóttir nóvember 2018

Biota

Tegund (Species)
Sandreyður (Balaenoptera borealis)

English Summary

Balaenoptera borealis population size in Icelandic waters is estimated at least around 10,000 individuals. There are no signs of a decline and therefore the species is listed as least concern (LC) according to IUCN criteria.