Runnafífill (Hieracium holopleurum)

Description

Undafífill með eitt til fjögur stöngulblöð, fremur smáar körfur og reifablöðin stundum með áberandi gráan jaðar vegna stjarnhára.

Blað

Plöntur með blaðhvirfingu. Stöngulblöðin oftast eitt til fjögur, oftast stilkuð. Blöð stundum heilrend en oft nokkuð tennt, einkum neðan til. Blaðka mjókkar oftast smám saman niður að stilknum. Blöð oftast græn en stundum gulleit, bláleit eða rauðleit. Broddhár á blaðröndum ekki áberandi gróf. Blöð frekar lítið hærð. Tennur á neðsta hluta blaða stundum stórar. Blöðkugrunnur getur stöku sinnum verið nokkuð þver. Það er sjaldan sem stöngulblöð vantar alveg en það kemur fyrir (Bergþór Jóhannsson 2004).

Blóm

Körfustilkar eru oft stuttir og körfur því þétt saman en stundum eru körfustilkar langir og körfur geta verið margar. Kirtilhár á reifum stutt eða frekar stutt, oft dökk en stundum gul og hnúður er oft gulleitur. Dökk rák oft eftir miðju reifablaða, einkum innri reifablaða. Rákin er stundum mynduð af svörtum grunni broddháranna en stundum eru jaðrar reifablaða svo loðnir af stjarnhárum að áberandi grár jaðar myndast á þeim. Stílar á þurrkuðum plöntum dökkir, oftast mórauðir eða svartir, sjaldan gulgráir eða gulmórauðir. Körfur smáar eða í meðallagi stórar. Kirtilhár aldrei mest áberandi hárgerð á reifum. Reifablöð frammjó, oft með rauðleitum enda. Stundum er stjarnhæring reifa mjög mikil og eru þar þá oft sárafá broddhár og kirtilhár. Loðni jaðar reifablaðanna er stundum mjög áberandi en reifar geta einnig verið afar snoðnar. Reifablöð eru stundum öll gráloðin af stjarnhárum. Þegar reifar eru lítið stjarnhærðar og áberandi snoðnar er svarti liturinn á grunni broddháranna mjög áberandi. Oft eru jaðrar reifablaða, einkum innri reifablaða, áberandi ljósir (Bergþór Jóhannsson 2004).

Aldin

Fræ með svifhárakransi.

Distribution map

Author

Hörður Kristinsson 2007

Biota

Tegund (Species)
Runnafífill (Hieracium holopleurum)