Enginn asi á geitungum

24.05.2007

Á vorin ríkir gjarnan nokkur eftirvænting vegna geitunga og er skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun oft spurður að því hvernig þeim reiðir af að afloknum vetri. Flestir vonast eftir svari á einn veg. Það hefur gjarnan gerst á góðviðrisdegi upp úr miðjum maí að geitungar hafi geyst fram á völlinn og orðið nokkuð áberandi. Þetta hefur enn ekki gerst þetta vor 2007. Er það fyrirboði?

Fyrsti geitungurinn sást 4. maí ...

Fjögurra daga gamalt trjágeitungsbú á dyrakarmi í Hafnarfirði 23. maí 2007. Ljósm. Erling Ólafsson.

Geitunga hefur þó vissulega orðið vart það sem af er maí. Sá fyrsti sem spurðist af á höfuðborgarsvæðinu þetta vorið sást í Kópavogi 4. maí. Ekki er vitað hverrar tegundar hann var. Þrem dögum síðar gómaði skordýrafræðingurinn ofangreindi drottningu trjágeitungs að Skógum undir Eyjafjöllum. Síðan hefur spurst af einum og einum og eru bæði trjágeitungar og holugeitungar mættir til leiks.

... og fyrsta búið fannst 23. maí

Að þessu sinni var tilkynnt um fyrsta geitungsbúið til Náttúrufræðistofnunar 23. maí. Það fannst í Hafnarfirði og reyndist vera fjögurra daga gamalt trjágeitungsbú. Þar sem svalt hefur verið í veðri undanfarið er erfitt að meta hvert stefnir í þessum efnum í sumar. Ef til vill er geitungafæðin vísbending um að geitungar verði í færra lagi í sumar. Þó er ekki öll nótt úti enn og fullsnemmt að fagna.

Meira um geitunga