Asparglytta - Nýtt meindýr í uppsiglingu

26.06.2007

Vorið 2006 fannst í fyrsta sinn á Íslandi bjallan asparglytta (Phratora vitellinae) en hún er vel þekkt meindýr á trjám af víðiætt í norðanverðri Evrópu. Bjallan, sem er fagurgræn að lit, fannst í fyrra í reit hjá Skógrækt ríkisins að Mógilsá í Kollafirði. Hún gerði aftur vart við sig þar í vor og einnig í reit við Leirvogsá. Bjöllurnar hafa dálæti á alaskaösp, blæösp, viðju og gulvíði og mun sennilega fátt stöðva framrás þeirra úr þessu. Spurningin er fremur sú hvenær, en ekki hvort, þær muni ná til höfuðborgarsvæðisins.

Asparglytta (Phratora vitellinae) Asparglytta (Phratora vitellinae)
Asparglyttur (Phratora vitellinae) á alaskaösp á Mógilsá í Kollafirði 11. júní 2007.
Ljósm. Erling Ólafsson.
Asparglyttan (Phratora vitellinae) er fagurgræn og gljáandi á lit. Ljósm. Erling Ólafsson.

Í apríl 2006 fannst lítil fagurgræn og gljáandi bjalla í trjárækt Skógræktar ríkisins að Mógilsá í Kollafirði. Glæsilegt dýr. Um var að ræða bjöllu af laufbjallnaætt (Chrysomelidae) og síðar kom í ljós að um tegund var að ræða sem ekki hafði áður gert vart við sig hér á landi. Tegundin sem lifir á öspum og víði hefur hlotið heitið asparglytta (Phratora vitellinae) og virðist líkleg til að verða til óþurftar hér á landi á komandi árum.

Skaðleg ummerki á alaskaösp eftir asparglyttur (Phratora vitellinae) á Mógilsá í Kollafirði 18. júní 2007. Ljósm. Erling Ólafsson.


Asparglyttan á Mógilsá

Þegar sumarið 2006 gekk í garð kom í ljós að töluvert var um bjöllur þessar á alaskaöspum og ýmsum víðitegundum í trjáræktinni á Mógilsá. Einnig varð vart við umtalsverð ummerki á trjánum eftir nag bjallnanna. Um haustið fundust fjöldamargar bjöllur undir trjáberki á niðursöguðum trjábolum, en þar höfðu þær komið sér fyrir til vetrardvalar.

Sagan endurtók sig í apríl í vor (2007). Bjöllur komu fram í gildru sem þar er staðsett vegna fiðrildarannsókna. Þegar aspir og víðir tóku að laufgast kom í ljós mikill fjöldi bjallna á trjánum og þegar komið var fram í miðjan júní voru skemmdir af þeirra völdum orðnar umtalsverðar. Fjöldinn var mestur þar sem skýlt var, þ.e. neðan til í trjánum og þar sem trén uxu hvað þéttast. Voru laufblöð þar gjarnan algjörlega uppétin.


Hvernig bárust bjöllurnar?

Þessari spurningu verður ekki svarað. Skógrækt ríkisins að Mógilsá flytur nú á tímum ekki inn trjáplöntur eftir því sem höfundi pistils hefur verið tjáð. Á staðnum er starfandi trjámiðlun gæti verið varasöm, einkum nú sem leið til að bera bjöllurnar út frá Mógilsá.

Eru líkur á útrás?

Ef gert er ráð fyrir að upphafið hafi átt sér stað á Mógilsá þá er útrásin þegar hafin. Bjöllurnar eru fleygar og fljúga um frjálslega á góðviðrisdögum. Þann 15. júní var farin yfirreið um Mosfellsbæ og næsta nágrenni Mógilsár. Bjallnanna varð hvergi vart í þéttbýli bæjarins og ekki heldur inni í Mosfellsdalnum. Upp með Leirvogsá voru skoðaðir fjórir trjálundir með alaskaöspum, viðju og alaskavíði. Asparglyttan var komin í þrjá þeirra, en í þeim fjórða (asparlundur) var ekki jafn skjólsamt og í hinum og þar varð bjallnanna ekki vart.

Lífshættir

Asparglyttur hafa verið mikið rannsakaðar í norðanverðri Evrópu þar sem tegundin er vel þekkt meindýr á trjám af víðiættinni (Salicaceae). Fullorðnar bjöllur vakna af vetrardvala á vorin, taka hraustlega til matar síns á nýsprottnum laufunum og verpa eggjum sínum á hýsilplönturnar. Bjöllurnar hverfa að því loknu en við taka lirfurnar sem halda áfram að bíta laufblöðin. Fullvaxnar yfirgefa þær trén og púpa sig niðri á jörðinni. Ný kynslóð skríður úr púpunum þegar haustar og leggst í vetrardvala. Þekkt eru dæmi um þrjár kynslóðir á sumri í Mið-Evrópu.

Athylisverðar lirfur asparglyttunnar

Lirfur asparglyttunnar hafa töluvert verið rannsakaðar enda má margt af þeim læra um lífsbaráttu og aðlögun kvikinda. Úr laufum fæðuplantnanna fá lirfurnar í sig sykru sem kallast salicyl. Henni umbreyta þær í salicylaldehýð sem þær gefa frá sér í gegnum kirtla til að verjast rándýrum. Það hrífur ágætlega á hin almennu rándýr. Hins vegar hafa þróast tegundir sem taka ekki mark á þessari viðvörun lirfanna en nýta varnarefnið þess í stað til að hafa upp á lirfunum og leggja þær sér til munns eða verpa í þær eggjum sínum.

Hinar ýmsu tegundir víðis og aspa framleiða salicyl í mismiklum mæli. Margar rannsónir á asparglyttum tengjast þessu, þ.e. hvort bjöllurnar velji sér fæðuplöntur í samræmi við magn sykrunnar og hvernig afkoman er í tengslum við það. Ekki verður farið nánar út í þetta á þessum vettvangi.

Hvers má vænta af asparglyttunum í framtíðinni?

Enn hefur ekki farið fram könnun á því hvaða trjátegundir verða helst fyrir barðinu á asparglyttum hér á landi. Í stuttu máli má þó geta þess að bjöllur þessar hafa dálæti á alaskaösp, blæösp, viðju og gulvíði. Hins vegar virtust þær ekki snerta alaskavíði þar sem hann óx umhverfis viðjurunna í lundi við Leirvogsá. Þar gæti skjólið reyndar hafa átt einhvern þátt. Þá er einnig merkjanlegt að mismunandi kvæmi alaskaaspar eru miskræsileg fyrir bjöllurnar. Höfundi er á þessari stundu ekki kunnugt um salicyl-innihald nefndra trjátegunda, nema að samkvæmt heimildum þá framleiðir gulvíðir lítið af efninu.

Sennilega mun fátt stöðva framrás asparglyttunnar úr þessu og því er spurningin miður bara sú hversu langan tíma það tekur hana að ná til höfuðborgarinnar.

Erling Ólafsson hefur umsjón með smádýrarannsóknum á NÍ