Ný tegund af fúasveppi finnst á viði í Reykjavík

08.06.2007
Randbarði
Picture: Guðríður G. Eyjólfsdóttir
Randbarði (Fomitopsis pinicola)

Í lok maí fannst ný sveppategund sem óx út úr furuplönkum í garði í Grafarvogshverfi. Sveppurinn var greindur sem tegundin Fomitopsis pinicola, fúasveppur sem veldur brúnfúa í viði, einkum barrviði en sjaldnar í laufviði. Þetta er fyrsti fundur tegundarinnar hérlendis en hún er algeng víða í Evrópu og Norður Ameríku.

Hann fékk íslenska nafnið randbarði þar sem líkar tegundir hafa fengið nöfn með endingunni barði sakir lögunar sinnar og randbarði var valið vegna rauðleits beltis við brún aldina. Sveppurinn er sú tegund borusveppa sem er fyrst þeirra að vaxa inn í dauð tré og höggna trjáboli og miðað við það er líklegt að hún hafi flust með viðnum til landsins. Tegundin er slæðingur hérlendis en þar sem hún er algeng og útbreidd víða um heim má ætla að hún eigi auðvelt með að dreifa sér.

Ítarlegri umfjöllun um randbarða Fomitopsis pinicola