Rjúpnastofninum hningar

15.06.2007

Ástand rjúpnastofnsins er slæmt. Rjúpum fækkar annað árið í röð í nær öllum landshlutum, að meðaltali 27% frá síðasta ári. Þetta eru helstu niðurstöður rjúpnatalninga Náttúrufræðistofnunar Íslands nú í vor, en mat á veiðiþoli stofnsins mun liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á varpárangri í sumar.

Að þessu sinni voru taldar rjúpur á 41 svæði í öllum landshlutum og farið um 3% af grónu landi neðan 400 m hæðar á landinu. Um 50 manns tóku þátt í talningunum. Aðeins á austanverðu landinu virðist um kyrrstöðu að ræða, um 5% fækkun, en mest mældist fækkunin á Suðvesturlandi 43% og 37% á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Þetta er annað árið í röð sem rjúpum fækkar en árin tvö þar á undan (2003/2004 og 2004/2005) óx stofninn um 80–100% á milli ára. Áður hefur stofninn vaxið í fjögur til fimm ár í uppsveiflu og síðan fækkað á ný. Hlutfallslegur vöxtur rjúpnastofnsins á friðunarárunum 2003–2005 á sér ekki hliðstæðu á síðari árum og var þess vænst að uppsveifla stofnsins mundi vara í 4–5 ár eins og raunin hefur oftast verið á síðustu áratugum. Nú bregður hins vegar svo við að vöxtur stofnsins stöðvast eftir aðeins tvö ár og niðursveifla hófst 2006. Miðað við fyrri reynslu má gera ráð fyrir að hún muni vara í 4–5 ár.

Sjá fréttatilkynning frá Náttúrufræðistofnun Íslands, 15. júní 2007