Dregið verður úr rjúpnaveiðum 2007

18.09.2007
Það er stefna íslenskra stjórnvalda að rjúpnaveiðar skuli vera sjálfbærar í þeim skilningi að stofninn nái að sveiflast á milli lágmarks- og hámarksára innan þeirra marka sem náttúruleg skilyrði setja honum hverju sinni. Í samræmi við það hefur Náttúrufræðistofnun Íslands metið veiðiþol rjúpnastofnsins. Tillögur Náttúrufræðistofnunar 2007 til umhverfisráðherra voru að dregið skyldi verulega úr rjúpnaveiði miðað við haustið 2006.

Umhverfisráðherra hefur ákveðið að dregið verði úr veiðunum nú í haust og að leyft verði að veiða rjúpur fjóra daga vikunnar í nóvember, sölubann verði á rjúpur og rjúpnaafurðir og að griðland verði fyrir rjúpur á Suðvesturlandi. (Fréttatilkynning og kort af friðlandi.)

Hámark var í stærð rjúpnastofnsins vorið 2005 en síðan hefur fuglum fækkað jafnt og þétt, fækkunin 2005/2006 nam 12% og 27% 2006/2007. Afföll hafa stóraukist á síðustu árum og eru komin aftur í sama horf og fyrir friðun haustið 2003.

Skriðlíngresi, Agrostis stolonifera. Ljósm. Hörður Kristinsson
Skriðlíngresi, Agrostis stolonifera. Ljósm. Hörður Kristinsson
Heildarafföll fullorðinna rjúpna frá vori til vors. Svartir punktar sýna afföll rjúpna á Norðausturlandi 1981 til 2003 og aðhvarfslínan byggir á þeim gögnum, hver punktur er eitt ár. Rauðir tíglar og grænir sýna afföll rjúpna á sama svæði friðunarárin tvö og árin næstu tvö á eftir. Gulir tíglar sýna afföll rjúpna á Suðvesturlandi tvö síðustu ár (2005/06 og 2006/07). Ólafur K. Nielsen fuglafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur vaktað rjúpnastofninn og rannsakar vistfræði og veiðþol rjúpunnar. Ljósm. Daniel Bergmann


Takmörkun rjúpnaveiða 2006 tókst ekki nægilega vel. Stefnt var að 45.000 fugla afla en heildarveiðin var á bilinu 60.000 til 76.000 fuglar (34−69% umfram ráðgjöf). Veiðidagar 2006 voru 26. Veiðimenn hafa engu að síður dregið verulega úr rjúpnaveiðum ef miðað er við það ástand sem var fyrir 2003. Haustið 2006 var stefnt að meðalveiði per mann yrði um 9 fuglar en reyndin var 12 til 15 fuglar á mann. Þessar niðurstöður sýna að 26 dagar er langur tími miðað við sóknargetu veiðimanna.

Áætlaður varpstofn rjúpu 2007 er 110.000 fuglar. Áætlaður veiðistofn 2007 er 440.000 fuglar miðað við að hlutfall ungfugla í stofninum sé 79%. Ásættanleg veiði miðað við forsendur stjórnvalda um sjálfbærar veiðar er um 38.000 fuglar að mati Náttúrufræðistofnunar.

Til að takmarka rjúpnaveiði 2007 lagði Náttúrufræðistofnun til að: (1) sölubann gildi áfram, (2) veiðidögum verði fækkað frá því sem var 2006, og (3) veiðimenn verði hvattir til að sýna hófsemi. Einnig að griðland fyrir rjúpur verði áfram á Suðvesturlandi og að neyslukönnun verði gerð í byrjun janúar 2008 til að fá óháð mat á veiði 2007 til samanburðar við veiðitölur. Báðir þættir hafa sannað gildi sitt.

Bréf Náttúrufræðistofnunar Íslands til umhverfisráðuneytisins.