Spánarsniglar láta á sér kræla

18.09.2007
Spánarsniglar eru mættir til leiks og því ljóst orðið að þurrkatíðin framan af sumri hefur ekki komið þeim fyrir kattarnef. Þess var reyndar vart að vænta því spánarsniglar eru ættaðir frá Íberíuskaga og því albúnir langtíma þurrkum. Einn snigill fannst í Salahverfi í Kópavogi og annar á Arnarnesi í Garðabæ.

Skriðlíngresi, Agrostis stolonifera. Ljósm. Hörður Kristinsson

Þann 31. ágúst s.l. fannst spánarsnigill í Salahverfi í Kópavogi og var honum komið til Náttúrufræðistofu Kópavogs, þar sem hann hefur verið hafður gestum til sýnis. Annar snigill fannst svo á Arnarnesi í Garðabæ 13. september og var honum komið til Náttúrufræðistofnunar Íslands. E.t.v. er þess nú skammt að bíða að sniglunum taki að fjölga og þeir fari að verða til óþurftar í görðum á höfuðborgarsvæðinu.

Það skal ítrekað að landnám spánarsnigla hér á landi er slæm tíðindi og er full ástæða til að mæta þeim af hörku. Æskilegt er að þeir sem ganga fram á þessa stóru rauðu snigla fangi þá og komi þeim til Náttúrufræðistofnunar og leggi þar með til upplýsingar um þróunina.

Nánari umfjöllun um spánarsnigil.