Fyrsta alheimsráðstefnan um sjófugla haldin í Kanada - starfsmaður Náttúrufræðistofnunar hlaut verðlaun fyrir veggspjald
Fyrsta alheimsráðstefnan um sjófugla var haldin í Victoria í Kanada fyrr í þessum mánuði. Freydís Vigfúsdóttir, líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun og doktorsnemi við University of East Anglia í Bretlandi, hlaut verðlaun fyrir veggspjald sitt þar sem fjallað er um rannsóknir á íslensku kríunni.
Á ráðstefnunni voru um 800 þátttakendur frá um 40 löndum, með yfir 700 kynningar frá um 1300 höfundum. Rúmlega 360 veggspjöld voru kynnt, og var Freydís ein þriggja sem hlutu verðlaun fyrir sín veggspjöld. Veggspjald Freydísar.
Freydís hlaut einnig fyrr í sumar ferðastyrk ráðstefnunnar til að sækja hana heim, en þar var byggt á framlagi og gæðum verka viðkomandi til ráðstefnunnar, til sjófuglarannsókna í gegnum árin og áætlaðra framtíðaverka í faginu. Viðurkenningin var veitt til að greiða þeim sem annarra fjármögnunarleiða áttu ekki kost, að komast á ráðstefnuna.
Eins og fyrr greinir er þetta í fyrsta sinn sem alheimsráðstefna um sjófugla og rannsóknir hefur verið haldin en ráðgert er að ráðstefnan verði haldin á fimm ára fresti. Óvíst er hvar hún verður haldin næst. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast á vef hennar.
Auk Freydísar voru fulltrúar Íslands á ráðstefnunni þeir Ævar Petersen, sérfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun og Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands.

Ef óskað er frekari upplýsinga um veggspjald og rannsóknir Freydísar má hafa samband á freydis at ni.is.