Aldurshlutföll rjúpu á veiðitíma 2010

17.01.2011

Náttúrufræðistofnun hvetur rjúpnaskyttur til að klippa annan vænginn af rjúpum sem þær veiða og senda stofnuninni. Af vængjunum má ráða hvort um er að ræða fugl á fyrsta ári eða eldri fugl. Fuglum af sama veiðisvæði eða úr sömu sveit þarf að halda saman í poka þannig að hægt sé að sundurgreina sýnin eftir landshlutum.

Niðurstöður verða birtar jafnóðum hér á vef Náttúrufræðistofnunar en þær verða meðal annars notaðar við mat á stofnstærð rjúpunnar í landinu.

Karri á flugi, á vinstri væng má sjá að hann er á fyrsta ári. Ljósm. Daníel Bergmann.


Fyrstu niðurstöður frá veiðitíma 2010

Samtals hafa borist vængir af 607 rjúpum til aldursgreiningar. Það er ljóst að veiðin hefur gengið mun hægar fyrir sig en árið 2009, ræður þar væntanlega miklu að skilyrði til veiða hafa verið veiðimönnum óhagstæð, veður hafa verið ströng og snjóhula. Samandregið fyrir gagnasafnið er hlutfall unga í veiðinni 77%. Sýnið er enn mjög lítið og þessar tölur eiga örugglega eftir að breytast. Í fyrra fengust til aldursgreiningar vængir af um 5600 fuglum, viðbúið er að sýnið verði eitthvað minna í ár.

Veiðitími 2010

Landshluti

Fullorðnir

Ungar

Samtals

% ungar

Suðvesturland

0

6

6

100%

Vesturland

8

15

23

65%

Vestfirðir

65

203

268

76%

Norðvesturland

9

55

64

86%

Norðausturland

55

184

239

77%

Austurland

0

0

0

Suðurland

1

6

7

86%

Samtals

138

469

607

77%


Aldurshlutföll 2009 og fyrr

Samtals bárust vængir af 5647 fuglum sem felldir voru á veiðitíma 2009. Hlutföll unga í veiðinni 2009, dregið saman fyrir allt gagnasafnið, voru 75%. Á meðfylgjandi línuriti má sjá hvernig þetta hlutfall hefur verið að breytast frá árinu 2005. Fyrstu árin var hlutfall unga tiltölulega lágt, um og undir 70%, en hefur síðan hækkað og hefur verið um og yfir 75% síðustu ár. Í lýðfræðilegum skilningi eru það afföll sem eru sértæk fyrir ungfuglinn (rjúpur á 1. ári) sem ráða stofnsveiflunni. Þetta kemur fram m.a. í aldurshlutföllum í stofninum á veiðitíma; í uppsveiflu, þegar þessi sértæku afföll eru lág, er hlutfall ungfugla í stofninum hærra en endranær (rétt innan við 80%).

Veiðitími 2009

Landshluti

Fullorðnir

Ungar

Samtals

% ungar

Suðvesturland

27

95

122

78%

Vesturland

211

647

858

75%

Vestfirðir

159

397

556

71%

Norðvesturland

346

853

1199

71%

Norðausturland

475

1570

2045

77%

Austurland

157

414

571

73%

Suðurland

60

236

296

80%

Samtals

1435

4212

5647

75%

Hlutfall unga í veiði 2005-2010.


Sendið vængina til Náttúrufræðistofnunar
Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar hafa um áratuga skeið rannsakað aldurshlutföll í rjúpnaafla. Á lit flugfjaðra rjúpunnar er hægt að greina á milli tveggja aldurshópa, fugla á fyrsta ári og eldri fugla. Þessi gögn eru m.a. notuð til að reikna út heildarstofnstærð rjúpunnar í landinu og eins til að rannsaka afföll. Veiðimenn, sem tilbúnir eru að taka þátt í þessari könnun, eru beðnir um að klippa annan vænginn af öllum þeim rjúpum sem þeir fella. Fuglum af sama veiðisvæði eða úr sömu sveit ber að halda sér í poka þannig að hægt sé að sundurgreina sýnin eftir landshlutum.

Vængina á að senda til:

Náttúrufræðistofnun Íslands

Urriðaholtsstræti 6–8

Pósthólf 125

212 Garðabær

Athugið að þetta er nýtt heimilsfang Náttúrufræðistofnunar. Stofnunin mun greiða sendingarkostnað sé þess óskað. Menn eru beðnir um að láta nafn sitt og heimilisfang fylgja með sýnum þannig að hægt sé að senda þeim, sem það vilja, niðurstöður greininga úr þeirra sýni og heildarniðurstöðurnar í lokin.

Flugfjaðrir á fyrsta árs fugli. Ljósm. Erling Ólafsson.

Litur flugfjaðra segir til um aldur
Til að aldursgreina rjúpur bera menn saman lit á flugfjöður nr. 2 og flugfjöður nr. 3 (talið utan frá). Fjaðurstafurinn sjálfur er alltaf dökkur hjá íslenskum rjúpum óháð aldri, en við erum að bera saman litinn á föninni sjálfri, ekki fjaðurstafnum. Hjá fuglum á 1. ári er flugfjöður nr. 2 dekkri en nr. 3 eins og hér sést. Ef smellt er á myndina hér til hægri, sést samanburðurinn. Hjá fullorðnum fuglum, fuglum á 2. ári og eldri, eru fjaðrir nr. 2 og 3 jafndökkar eða nr. 3 dekkri. Hjá sumum fullorðnum fuglum eru engin litarefni í fönum flugfjaðra nr. 2 og 3.