Verndun gróðurríkisins á norðurslóðum

03.02.2011

Grasafræðingar á norðurslóðum vinna m.a. saman að gerð gróðurkorta, gagnagrunnum um grasafræði og plöntulistum innan hópsins CAFF flora group.

Samfélagið í nærmynd sendir út frá Náttúrufræðistofnun. Hrafnhildur Halldórsdóttir, Leifur Hauksson, Guðmundur A. Guðmundsson og Kristján Jónasson. ©KB
Fundur um verndun gróðurríkisins á norðurslóðum var haldinn dagana 28. janúar til 1.febrúar s.l. Fundurinn var haldinn á Akureyri  í tengslum við 13. fund verkefnisins Lífríkisvernd á norðurslóðum, CAFF (The Conservation of Arctic Flora and Fauna Working Group), sem haldinn var 1. til 3. febrúar 2011.

Á fundinum um verndun gróðurríkisins var fjallað um verkefni sem unnið er að, svo sem gagnagrunn um plöntutegundir á norðurslóðum (Arctic Vegetation Database) og uppfærðan lista yfir fléttur og fléttuháða sveppi sem Hörður Kristinsson vinnur að. Lögð voru drög að válista yfir háplöntur sem vaxa á heimskautasvæðinu en slík vinna útheimtir viðamikið samstarf grasafræðinga. Framhald á starfi  sérfræðingahópsins var skipulagt til næstu tveggja ára.

Unnið hefur verið að gerð hnattræns gróðurkorts af barrskógabeltinu (Circum-Boreal Vegetation Map, CBVM) frá árinu 2006. Sú vinna er unnin í beinu framhaldi af skýrslu og korti af gróðurfari á norðurslóðum (Circumpolar Arctic Vegetation Map, CAVM) sem lauk árið 2003. Á fundinum nú voru kynntar frumútgáfur gróðurkorta nokkurra svæða og fjallað um uppbyggingu og samræmingu hnattræns gróðurlykils sem miðaður er við kort í mælikvarða 1: 7.500.000. Verkinu miðar vel og lagður var grunnur að áframhaldandi starfi.

CAFF flora group er einn af sérfræðihópum CAFF og eiga aðild að hópnum grasafræðingar frá öllum heimskautalöndunum. Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar eru í hópnum fyrir Íslands hönd og sátu fundinn þeir Eyþór Einarsson, grasafræðingur og sérstakur heiðursgestur, Guðmundur Guðjónsson landfræðingur, Hörður Kristinsson fléttufræðingur, Starri Heiðmarsson fléttufræðingur og Ævar Petersen dýravistfræðingur og formaður CAFF. Hópurinn hefur skilað mikilvægu starfi undanfarin misseri og framundan eru mörg mikilvæg verkefni sem einungis verða unnin í samstarfi allra heimskautalandanna s.s. arktískur válisti háplantna. Þátttaka Íslands í CAFF flora group er afar mikilvæg fyrir íslenskar grasafræðirannsóknir, ekki síst hvað varðar samræmingu og birtingu gagna.

Seinnipart sunnudagsins 30. janúar gaf hópurinn sér tíma til stuttrar skoðunarferðar um nágrenni Akureyrar þar sem m.a. var skoðuð paprikurækt á Brúnalaug í Eyjafirði.