Fuglalíf í óshólmum Eyjafjarðarár

09.05.2011

Flestar tegundir sem verpa í óshólmum Eyjafjarðarár eru útbreiddar hér á landi og nær allar algengar. Sjaldgæfasta tegundin á landsvísu er grafönd. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um fuglalíf í óshólmum Eyjafjarðarár 2010 sem unnin var fyrir Umhverfisnefnd Akureyrarbæjar.

Hrossagaukur. Ljósm. Daníel Bergmann.

Niðurstöður í skýrslunni eru bornar saman við skýrslu um fuglalíf í óshólmunum árið 2000 sem einnig var unnin fyrir Akureyrarbæ.

Síðan 2000 hafa fundist þrjár nýjar varptegundir í óshólmunum norðan gamla þjóðvegar. Árið 2005 bættust við tvær nýjar varptegundir, sandlóa og maríuerla, og árið 2010 fannst ein til viðbótar, heiðlóa. Þar með hafa alls fundist 27 tegundir varpfugla fram til þessa á athugunarsvæðinu í óshólmum Eyjafjarðarár.

Nokkrar breytingar hafa átt sér stað á stærð varpstofna frá 2000 til 2010. Fyrst er til að nefna umtalsverða fjölgun grágæsar og jaðrakans. Aukningin er í báðum tilvikum í takt við stofnþróun þessara tegunda á landinu í heild. Þá hefur stormmáfum og hettumáfum fjölgað á ný eftir stöðnun eða fækkun milli talninga 2000 og 2005. Nokkrar tegundir voru í hámarki vorið 2010, t.d. stokkönd, æðarfugl, spói og sílamáfur. Aðrar tegundir eru flestar í góðu jafnvægi, þ. á m. grafönd sem iðulega sýnir meiri náttúrulegar sveiflur en aðrar tegundir anda. Rauðhöfðaönd, hrossagaukur og óðinshani voru í lægri kantinum. Árið 2005 var óvenju mikið af þúfutittlingum í varpi.

Fuglalíf í óshólmum Eyjafjarðarár hefur átt undir högg að sækja vegna ýmissa umsvifa manna. Á þetta sérstaklega við á Kjarna- og Hvammsflæðum og við Akureyrarflugvöll þar sem tegundir hafa jafnvel horfið. Gengið hefur verið á varpsvæði með uppfyllingum, öryggissvæði verið sléttuð og flugvallarstarfsmenn hafa stundað eggjatínslu, eyðileggingu hreiðra og skotmennsku. Fuglalíf er þó í miklum blóma norðan gamla þjóðvegar, sömuleiðis umhverfis Leiruna og á mýrasvæðum austan Eyjafjarðarár.

Lesa má skýrsluna í heild sinni á vef Náttúrufræðistofnunar, NÍ-11003 (pdf, 5MB)