Hvítabirnan úr Rekavík
Rannsóknum á hvítabirnunni sem felld var í Rekavík 2. maí s.l. er að mestu lokið. Aldursgreiningar, sem byggja á talningu árhringja á tannrótum, sýna að birnan var ríflega þriggja ára. Fituforði hennar var ekki nema um 5% af líkamsþyngd sem er óeðlilega lítið miðað við árstímann.
Rannsóknir á hvítabirnunni eru í umsjón Karl Skírnissonar dýrafræðings á Tilraunastöðinni á Keldum og eru þær gerðar í samvinnu við Ólöfu Guðrúnu Sigurðardóttur, dýralækni og dýrameinafræðing á Keldum, og Þorvald Björnsson hamskera á Náttúrufræðistofnun.
Birnan var ekki smituð af tríkínum en í maga fannst sníkjuþráðormur (Contracaecum sp.) sem oft finnst t.d. í maga kampsels og hringanóra.
Birnan hafði ekki nærst áður en hún var felld en nokkrar gráleitar vængfjaðrir, væntanlega úr fýl, fundust í maga og nokkrar bringufjaðrir af svartfugli fundust aftast í meltingarveginum.
Fréttatilkynning frá Karli Skírnissyni í heild sinni
(pdf, 557KB)