Rjúpnatalningar 2011 - Fréttatilkynning

14.06.2011

Rjúpnatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands vorið 2011 sýna fækkun um nær allt land. Rjúpnastofninn á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum var í hámarki vorið 2010. Fækkunin er hröð sérstaklega á Norðausturlandi þar sem stofninn helmingaðist á milli ára. Á Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi virðist stofninn hins vegar hafa verið í hámarki vorið 2009. Þar sýna talningar nú fækkun eða kyrrstöðu 2010 til 2011. Samandregið fyrir öll talningasvæði var meðalfækkun rjúpna 26% á milli áranna 2010 og 2011. Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins mun liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á varpárangri rjúpna, afföllum 2010 til 2011 og veiði 2010.

Rjúpur í Hrísey. ©Jóhann Óli Hilmarsson

Árlegri vortalningu Náttúrufræðistofnunar Íslands á rjúpu er lokið. Talningar gengu ágætlega þrátt fyrir óhagstætt tíðarfar og voru rjúpur taldar á 43 svæðum í öllum landshlutum. Alls voru taldir 1285 karrar sem er um 2% af áætluðum heildarfjölda karra í landinu samkvæmt nýlegu stofnstærðarmati. Talið var á um 3% af grónu landi neðan 400 m hæðarlínu. Talningarnar voru unnar í samvinnu við allar náttúrustofur landsins, þjóðgarðinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarð, Fuglavernd, Skotvís og áhugamenn. Um 65 manns tóku þátt í talningunum að þessu sinni.
Rjúpum fækkaði um land allt 2010 til 2011. Helsta undantekningin er á friðaða svæðinu á Suðvesturlandi en þar var kyrrstaða eða aukning á sex af átta talningasvæðum.

Sjá nánar fréttatilkynningu um rjúpnatalningar 2011 (pdf).