Vistgerðir á vefnum

08.07.2011
Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar hafa á undanförnum árum sérhæft sig í að skilgreinina og flokka vistgerðir. Alls hafa verið skilgreindar 24 tegundir vistgerða á hálendi Íslands og hafa 8 svæði verið rannsökuð og kortlögð.
Rannsóknasvæðin átta eru öll á miðhálendinu, bæði sunnan og norðan jökla.

Vistgerð er landeining sem býr yfir ákveðnum eiginleikum hvað varðar loftslag, berggrunn, jarðveg, gróður og dýralíf. Innan sömu vistgerðar eru aðstæður með þeim hætti að þar þrífast svipuð samfélög plantna og dýra. Í Evrópu og víðar hefur verið unnið að því að flokka land í vistgerðir, einkum vegna náttúruverndar og til að stjórna betur nýtingu á landi.

Svæðin átta sem rannsökuð hafa verið á Náttúrufræðistofnun eru alls um 6.500 ferkílómetrar að flatarmáli eða rúmlega 6% af landinu öllu. Á svæðunum var gróður mældur og umhverfisþættir kannaðir á 393 gróðursniðum sem staðsett voru af handahófi í mismunandi gróður- og landgerðum. Smádýrum var safnað á völdum gróðursniðum og þéttleiki varpfugla var skráður á sérstökum fuglasniðum, alls um 900 km að lengd.

Rannsóknaraðferðum og niðurstöðum rannsóknanna hefur verið lýst í skýrslum sem gefnar voru út árið 2009 og vistgerðir einstakra svæða kortlögð. Þeim eru nú gerð skil á vefnum, sjá Vistgerðir.