Arnarvarp gekk vonum framar

26.08.2011

Þrátt fyrir afleitt tíðarfar gekk arnarvarp sæmilega árið 2011. Alls komust 29 ungar á legg og hafa ekki verið færri síðan 2006. Einungis 19 pör komu upp ungum en varpárangur þeirra var hins vegar með besta móti, því hlutfallslega mörg þeirra komu upp 2 ungum og eitt þeirra kom upp 3 ungum. Slíkt er afar sjaldgæft hér á landi og er aðeins vitað um 8 slík tilvik frá seinni hluta 19. aldar. Arnarstofninn telur um 66 pör og hefur staðið í stað undanfarin ár eftir nokkuð samfelldan vöxt frá því laust fyrir 1970. Alls hafa verið merktir 500 ernir hér á landi frá 1939, langflestir undanfarin tíu ár. Assa sem merkt var sem ungi sumarið 2005 varp nú sex ára gömul í fyrsta sinn og hafði þá sest að 85 km frá æskuóðali sínu.

Þrálátar norðanáttir og kuldatíð vorið 2011 höfðu áhrif á varp fugla víða um land. Því var viðbúið að arnarvarp myndi ganga mun verr en undanfarin ár. Varpárangur arna reyndist þó í meðallagi við Faxaflóa en afar slakur við norðanverðan Breiðafjörð og á Vestfjörðum en á því svæði komu einungis 6 pör af 26 upp ungum. Ernir verpa snemma og fara að huga að varpi þegar í seinni hluta mars með því að dytta að hreiðrum og stunda fluglistir og aðra ástarleiki. Þeir fyrstu verpa um 10. apríl og eru flestir orpnir hálfum mánuði síðar. Varptíminn er óvenju langur eða 4-5 mánuðir enda verða ungarnir ekki fleygir fyrr en um miðjan ágúst. Því eru ernir berskjaldaðir fyrir slæmu tíðarfari allt fram til loka júní en þá eru ungarnir orðnir nógu þroskaðir til að halda sjálfir á sér hita. Ógætileg umferð við arnarhreiður á viðkvæmasta tímanum getur leitt til þess að hreiður misfarist en sem betur fer virða langflestir hreiðurhelgi arnarins. Fátítt er núorðið að menn eyðileggi vísvitandi arnarvarp, þótt það gerist því miður nær árlega, þrátt fyrir að örninn hafi verið alfriðaður í nær heila öld eða frá 1914.

Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar arnarstofninn í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Náttúrustofurnar í Stykkishólmi og Bolungarvík.

Assa á flugi
Picture: NÍ Kristinn Haukur Skarph.

Fullorðinn örn við hreiður. Þessi 6 ára gamla assa varp í fyrsta sinn vorið 2011 við sunnanverðan Breiðafjörð, 85 km frá æskuóðali sínu. Á vinstri fæti glittir í svart merki (einkenni unga sem voru merktir 2005) og töluna 17 sem er hluti af einstaklingsauðkenni. Ljóst höfuð og hvítt stél sýna að þetta er fullorðinn fugl.

Arnarstofninn 1870-2011
Picture: NÍ Kristinn Haukur Skarph.

Arnarstofninn 1870-2011. Örnum fækkaði hratt á seinni hluta 19. aldar vegna ofsókna og eiturútburðar og hélt sú þróun áfram eftir að fuglarnir voru alfriðaðir 1914. Stofninn tók að rétta úr kútnum eftir að bannað var að bera út stríknín fyrir refi árið 1964 og hefur ríflega þrefaldast síðan. Svartir punktar tákna gróft mat en rauðir talningar.

Arnarvarp 1994-2011
Picture: NÍ Kristinn Haukur Skarph.

Arnarvarp 1994-2011. Stofninn jókst jafnt og þétt fram til 2005 en hefur lítið breyst síðan (svört lína). Aðeins hluti fullorðinna fugla verpa á hverju ári (blá lína). Undanfarin ár hafa yfirleitt ríflega 30 arnarungar komist á legg (rauð lína) og 20-25 pör komið upp ungum (græn lína).

Varpárangur arna 1994-2011
Picture: NÍ Kristinn Haukur Skarph.

Varpárangur arna 1994-2011. Hátt hlutfall geldpara einkennir íslenska arnarstofninn og í bestu árum verpa aðeins 70-80% fuglaanna (svört lína). Viðkoma arnarstofnsins hefur verið tiltölulega stöðug mörg undanfarin ár eða 0,4-0,6 ungi/par (blá lína) og helst í hendur við hlutfall þeirra para sem koma upp ungum hverju sinni (græn lína). Haförninn hremmir þá bráð sem hann á auðveldast að ná í en sérhæfir sig ekki í einstökum tegundum. Breytingar frá ári til árs í varpi og viðkomu tengjast því tíðarfari en ekki sveiflóttu fæðuframboði.

Varpárangur arna og meðalhiti í Stykkishólmi að vori 1994-2011
Picture: NÍ Kristinn Haukur Skarph.

Varpárangur arna og meðalhiti í Stykkishólmi að vori 1994-2011. Tæplega helmingur af árlegum breytileika í varpárangri arnarstofnsins tengist tíðarfari að vori. Varpárangur er hér mældur sem hlutfall þeirra para sem kom upp ungum af þeim pörum sem urpu á annað borð.

Arnarmerkingar 1963-2011
Picture: NÍ Kristinn Haukur Skarph.

Arnarmerkingar 1963-2011. Alls hafa 500 ernir verið merktir hér á landi frá 1939, flestir frá  2001 (331 eða 66%). Undanfarin ár hafa allir arnarungar verið litmerktir og er því hægt að greina einstaklinga á færi (sjá mynd af össu hér að ofan). Hefur það stóraukið upplýsingar um ferðir fuglanna, afkomu og hvar og hvenær þeir hefja varp.