Sextugasta vetrarfuglatalningin

15.12.2011

Hin árlega vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunar Íslands fer fram helgina 7.- 8. janúar n.k. Markmið vetrarfuglatalninga er að kanna hvaða fuglategundir dvelja hér að vetrarlagi, meta hversu algengir fuglarnir eru og í hvaða landshlutum þeir halda sig. Eins nýtast upplýsingarnar til að fylgjast með langtímabreytingum á stofnum margra fuglategunda.

Stormmáfur að vetri. Ljósm. Erling Ólafsson

Talningarnar hófust hér í desember 1952 og er þessi því sú sextugasta í röðinni. Ef veður er óhagstætt umrædda helgi geta talningarmenn valið annan dag en þurfa þá að hafa samráð við talningarmenn í næsta nágrenni.

Niðurstöður talninga verða settar inn á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar um vetrarfuglatalningar jafnskjótt og þær berast. Sjá einnig flýtival á þá síðu hér til vinstri. Út frá niðurstöðum talninga hafa verið reiknaðar út langtímavísitölur fyrir algengar fuglategundir á Suðvesturlandi og fjallað er um þær í frétt á vefsíðu stofnunarinnar.

Nánari upplýsingar um einstök talningarsvæði o.fl. veita Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage.