Bók um stofnvistfræði fálkans

17.01.2012
Fálki
Picture: Daníel Bergmann
Fálki

Fyrir um ári síðan var haldin alþjóðleg ráðstefna um fálka og rjúpur í borginni Boise í Idaho í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Tilgangurinn var að fjalla um tengsl fálka og rjúpu og hvers vænta má um hlutskipti tegundanna í ljósi loftslags- og gróðurfarsbreytinga á norðurhjara, þar sem þessar tegundir eiga sín óðul.

Þrír Íslendingar tóku þátt í ráðstefnunni: Magnús Magnússon kvikmyndagerðamaður sýndi mynd sína „​Í ríki fálkans“, Daníel Bergmann var með ljósmyndasýningu og Ólafur K. Nielsen, fuglafræðingur við Náttúrufræðistofnun, flutti tvö erindi. Annað erindið fjallaði um stofnvistfræði fálkans og hitt um stjórnun rjúpnaveiða. Einnig kynnti Ólafur veggspjald um sníkjudýrafánu íslensku rjúpunnar. Aðrir höfundar að veggspjaldinu voru Ute Stenkewitz doktorsnemi við Náttúrufræðistofnun og Karl Skírnisson dýrafræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum. Ætlunin er að gefa út bók með niðurstöðum ráðstefnunnar og hún mun koma út á vordögum. Bókarkaflarnir eru þegar komnir út á alnetinu og hægt að nálgast þá á vefsíðu ráðstefnunnar.