Kadmíum í mosa á Íslandi

06.01.2012
Tildurmosi (Hylocomium splendens)
Picture: Sigurður H. Magnússon
Tildurmosi

Hér á landi og á meginlandi Evrópu hefur um skeið verið fylgst með magni nokkurra þungmálma í andrúmslofti með mælingum á styrk þeirra í mosa. Mælingarnar í Evrópu hófust upp úr 1980 en hér á landi var mosum safnað í fyrsta sinn árið 1990. Tilgangur verkefnisins er m.a. að fylgjast með þungmálmamengun og finna helstu uppsprettur hennar.

Undanfarin ár hafa nær 30 lönd tekið þátt í verkefninu og er mosum safnað á fimm ára fresti. Árið 2005 voru um 6000 sýni tekin víðs vegar um Evrópu. Hér á landi hafa verið tekin sýni af tildurmosa, Hylocomium splendens, á yfir 100 stöðum víðsvegar um land og magn þungmálma mælt (1. mynd). Einn þessara málma er kadmíum en hann er ásamt blýi og kvikasilfri í hópi þeirra málma sem talinn er einna skaðlegastur umhverfi og heilsu manna (Harmens o.fl. 2008). Vegna umsvifa mannsins berst kadmíum einkum út í umhverfið við sorpbrennslu, frá iðnaði og við dreifingu fosfóráburðar. Hér á landi tengist magn kadmíums í mosa að nokkru leyti eldvirkni.

Styrkur kadmíums lækkar verulega í Evrópu

Niðurstöður sýna að frá því að mælingar hófust hefur styrkur kadmíums lækkað mikið, bæði hér á landi og á meginlandi Evrópu (2.–3. mynd). Þær sýna einnig að árið 2005 var magn kadmíums í mosa á Íslandi lægra en í flestum öðrum löndum (3. mynd). Þær sýna sömuleiðis að við upphaf mælinga árið 1990 var styrkur kadmíums í mosa á Íslandi nokkru hærri innan gosbeltisins en annars staðar á landinu en þar hefur styrkur efnisins einnig lækkað verulega frá 1990. Niðurstöður frá 2010 liggja nú fyrir en ekki hefur unnist tími til að vinna úr þeim. Bráðabirgðaútreikningar gefa til kynna að ekki hafi orðið marktækar breytingar á styrk kadmíums í íslenskri náttúru frá 2005.

Söfnunarstaðir tildurmosa

Söfnunarstaðir tildurmosa til mælinga á þungmálmum sumarið 2010. Alls var safnað á 147 stöðum víðs vegar um landið.

Meðalstyrkur kadmíums í mosa

Meðalstyrkur kadmíums í mosa í 50x50 km reitum árin 1990, 1995, 2000 og 2005 (Harmens o.fl. 2008).

Styrkur kadmíums í mosa

Til vinstri eru sýndar breytingar á styrk kadmíum í mosa frá 1990 til 2005; sýnt sem meðaltal miðgilda í 16 Evrópulöndum. Til hægri eru sýnd miðgildi á styrk kadmíums í mosa árið 2005 í sömu löndum (Harmens o.fl. 2008)

Heimild

Harmens, H., Norris, D. og the participants of the moss survey 2008. Spatial and temporal trends in heavy metal accumulation in mosses in Europe (1990-2005). Bangor, UK: Programme Coordination Centre for the ICP Vegetation, Centre for Ecology and Hydrology og Environment Centre Wales. Bls. 54.

Nánari upplýsingar um verkefnið og niðurstöður þess má finna á vef Náttúrufræðistofnunar og á vef ICP Vegetation. Verkefnisstjóri er Sigurður H. Magnússon.