Pödduvefurinn telur nú 250 tegundir

15.03.2012

Pödduvef Náttúrufræðistofnunar var hleypt af stokkunum 14. ágúst 2009 og voru þá kynntar til sögu 80 tegundir. Síðan hafa bæst við tegundir jafnt og þétt og var 250 tegunda markinu náð nú um miðjan mars. Vefurinn hefur sannað gildi sitt því á degi hverjum er hann heimsóttur af fjölda notenda og oft heyrist til hans vitnað.

Rauðhumla er ein þeirra tegunda sem fjallað er um á pödduvefnum en hún er nýlegur landnemi í örri fjölgun. Ljósm. Erling Ólafsson.

Stefnan var sett á það í upphafi að bæta tveim nýjum tegundum á vefinn í viku hverri. Það hefur gengið þokkalega eftir ef undanskilin eru hlé vegna sumarleyfa og flutninga aðseturs Náttúrufræðistofnunar frá Reykjavík til Garðabæjar haustið 2010. Auk viðbótanna hafa eldri pistlar verið endurritaðir og uppfærðir eftir því sem nýjar upplýsingar hafa aflast um viðkomandi tegundir.

Úrvalið á vefnum er afar fjölbreytt og má þar afla fróðleiks um tegundir af hinum ýmsu hópum smádýra, s.s. skordýr, áttfætlur, fjölfætlur, snigla og ánamaðka. Þar eru fulltrúar tegunda sem lifa í náttúrunni, húsagörðum og húsakynnum okkar, þar sem margt kvikindið er óvelkomið. Nýir landnemar eru dregnir fram sérstaklega. Einnig er fjallað um útlendar tegundir sem hingað berast, sumar með vindum aðrar með varningi. Á vefnum er hægt að nálgast tegundirnar eftir því hvernig háttar til með þær (sbr. framangreint) og einnig eftir tegundahópum.

Samkvæmt tölum um heimsóknir á vef Náttúrufræðistofnunar árið 2011 er pödduvefurinn ein vinsælasta síðan þar. Ljóst er að langflestir kynna sér tegundir sem finnast í híbýlum okkar til að komast að því hvers kyns kvikindi menn finna hjá sér. Mörgum hefur tekist ágætlega upp með að greina sambýlinga sína af myndunum og um leið að fræðast um lífshætti þeirra í meðfylgjandi texta.

Um hverja tegund er sagt frá heimsútbreiðslu hennar, útbreiðslu eða fundarstöðum hér á landi, lífsháttum og ýmsu tilfallandi. Einnig er gefin gróf lýsing á útliti sem nota má til að þekkja tegundirnar.

Nú er svo komið að fjöldi pistla á pödduvefnum er að sprengja formið sem þeim var mótað í upphafi þannig að leit að ákveðnum dýrum er tekin að þyngjast. Endurskoðun á forminu er nú í bígerð og er samtímis ráðgert að tengja betur saman skyldar tegundir með texta um tegundahópana.