Íslenska flóran í farsíma og spjaldtölvur

21.05.2012

Þann 1. júní n.k. kemur á markað hugbúnaður fyrir Android símtæki og spjaldtölvur sem gerir fólki kleift að greina plöntur á einfaldan hátt. Um er að ræða greiningarlykil íslensku flórunnar með rúmlega 800 ljósmyndum af u.þ.b. 470 plöntum ásamt ítarlegum teikningum af sérkennum plantnanna. Sigmundur Helgi Brink hjá Landbúnaðarháskóla Íslands átti frumkvæði að verkefninu og hefur unnið að þróun þess ásamt Guðmundi Frey Hallgrímssyni forritara. Náttúrufræðistofnun Íslands, ásamt Landbúnaðarháskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Hátækni, styrkir verkefnið.

Plöntugreiningarlykill fyrir símtæki og spjaldtölvur. © genium.is.

Við þróun og smíði hugbúnaðarins var leitað í plöntusafn Náttúrufræðistofnunar Íslands, leitað var eftir sérkennum hverrar plöntu, þau skráð og flokkuð niður. Einkenni ólíkra plantna voru borin saman og auðkenni tegunda þannig dregin fram. Niðurstaðan er einfalt viðmót þar sem notandinn sjálfur velur einkenni sem hann kýs að greina plöntuna eftir. Hægt er að greina eftir fjölda krónublaða, lit, blaðröndum stöðu á stöngli, stönglinum sjálfum, hæringu hans, laufblöðum og svo mætti lengi telja. Hörður Kristinsson grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands lagði til allan texta í lýsingar, ljósmyndir og grunn í útbreiðslukortin, einnig þau greiningaratriði sem notuð eru í lyklinum. Sara Riel listamaður teiknaði allar skýringarmyndir.

Unnið er að því að hanna plöntulykilinn fyrir önnur stýrikerfi, Windows síma og spjaldtölvur, ásamt IOS iPhone og iPad.

Nánari upplýsingar um plöntulykilinn er að finna á vef plöntulykilsins.