Náttúrugripagreining á degi íslenskrar náttúru

12.09.2012
Hrafntinna
Picture: Kristján Jónasson
Hrafntinna

Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur í annað sinn sunnudaginn 16. september næstkomandi. Í tilefni af deginum ætlar Náttúrufræðistofnun Íslands að bjóða upp á náttúrugripagreiningar á starfsstöðvum sínum í Garðabæ og á Akureyri.

Fyrir tveimur árum ákvað ríkisstjórn Íslands að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag til að undirstrika mikilvægi hennar. Dagurinn sem valinn var er 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, en sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.

Í tilefni af deginum er boðið upp á ýmsa viðburði víða um land og á höfuðborgarsvæðinu. Náttúrufræðistofnun Íslands ætlar að halda upp á daginn með því að bjóða upp á náttúrugripagreiningar milli klukkan 14 og 16. Almenningi gefst þá kostur á að fá sérfræðinga stofnunarinnar til að greina fyrir sig náttúrugripi að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ og að Borgum við Norðurslóð á Akureyri.

Í Urriðaholti verða sérfræðingar í steinum, steingervingum, íslenskum plöntum, sjávardýrum, fuglum og villtum spendýrum. Þeir taka á móti gestum í rúmgóðu anddyri stofnunarinnar en húsið verður ekki opið að öðru leyti.

Á Akureyri verða sérfræðingar í sveppum, íslenskum plöntum, fléttum, fuglum og steinum. Ennfremur munu starfsmenn á Akureyri kynna starfsemi stofnunarinnar.
 

Sjá nánar dagskrá á degi íslenskrar náttúru á vef umhverfisráðuneytis.