Steinar vinsælastir í náttúrugripagreiningu

20.09.2012

Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlegur í annað sinn sunnudaginn 16. september s.l. Í tilefni dagsins bauð Náttúrufræðistofnun Íslands upp á náttúrugripagreiningar á starfsstöðvum sínum í Garðabæ og á Akureyri.

Flestir komu með steina til greininga.

Í Urriðaholti í Garðabæ tóku sérfræðingar í steinum, steingervingum, íslenskum plöntum, sjávardýrum, fuglum og villtum spendýrum á móti gestum í rúmgóðu anddyri stofnunarinnar. Á Akureyri var allt húsnæði stofnunarinnar opið, starfssemin þar kynnt og sérfræðingar í sveppum, íslenskum plöntum, fléttum, fuglum og steinum greindu náttúrugripi sem gestir komu með. Sýnishorn af nokkrum sveppum, m.a. lerkiskjöldu, feyrutrektlu og kúalubba, voru til sýnis á rannsóknastofu og á veggjum voru spjöld með ýmiss konar fróðleik um sveppi.

Á báðar starfsstöðvar komu áhugasamir gestir með áhugaverða gripi til greiningar. Flestir komu með steina sem safnað hefur verið bæði hér á landi og erlendis og voru það helst bergtegundir og aldur sem áhugi manna beindist að. Meðal áhugaverðra gripa sem komið var með var til að mynda 8-9 milljón ára steinrunnið tré sem fannst á heiði á Austurlandi fyrir fáum vikum síðan. Nokkrir gestir komu vegna almenns áhuga um starfsemi stofnunarinnar. Náttúrufræðistofnun þakkar fyrir ánægjulegan dag með fróðleiksfúsum gestum á degi íslenskrar náttúru.