Niðurstöður frjómælinga 2012

16.10.2012

Niðurstöður frjómælinga árið 2012 hafa verið birtar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Fjöldi frjókorna í lofti yfir Reykjavík og á Akureyri reyndist yfir meðallagi en í Garðabæ voru þau færri en í fyrra.

Sumarið 2012 mældist mikið af grasfrjóum á öllum mælistöðum. Myndin sýnir háliðagras í blóma en grasfrjó er á innfelldu myndinni. Ljósm. Margrét Hallsdóttir.

Í Reykjavík var fjöldi birki-, aspar- og grasfrjóa yfir meðallagi áranna 1988-2011 en súrufrjó voru færri. Júní var aðalfrjómánuðurinn í Reykjavík. Þá voru birki og fura í blóma og dreifðu frjóum sínum ríkulega. Í Urriðaholti í Garðabæ fóru frjómælingar fram öðru sinni í ár. Þar komu í heild færri frjókorn í frjógildruna en í fyrra en grasfrjó voru þó heldur fleiri en 2011. Í Urriðaholti reyndist júní aðalfrjómánuðurinn líkt og í Reykjavík. Á Akureyri hafa grasfrjó aðeins einu sinni áður verið fleiri en í ár en það var sumarið 2003. Súrufrjó voru í meðallagi en bæði birki- og asparfrjó reyndust nokkuð færri en í meðalári. Ágúst var aðalfrjómánuðurinn fyrir norðan en þá náðu grasfrjó hámarki, mældust yfir 300 þann 8. ágúst.

Í samantekt á vef Náttúrufræðistofnunar má lesa nánar um niðurstöður frjómælinga 2012 og skoða myndrit sem sýnir hvernig heildarfrjómagn breytist frá ári til árs í Reykjavík á árunum 1988-2012, í Garðabæ 2011-2012 og á Akureyri 1998-2012. Einnig eru sett fram frjódagatöl 2012 fyrir birki- og grasfrjó í Reykjavík og á Akureyri. Einnig má nálgast ársyfirlit og fréttatilkynningar fyrir einstaka mánuði sem pdf-skjöl.