Nýr áfangi í kortagerð: Vistgerðakort af miðhálendi Íslands

22.11.2012

Á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur um nokkurra ára skeið verið unnið að skilgreiningu og flokkun vistgerða á miðhálendinu. Vistgerðakort hafa verið teiknuð af 8 rannsóknasvæðum. Að undanförnu hefur verið unnið að frekari kortlagningu af öllu miðhálendinu. Stofnunin hefur nú gefið út fyrstu vistgerðakortin þar sem landi er skipt í 20x20 km reiti í samræmi við reitakerfi Landmælinga Íslands og LÍSU samtakanna. Kortin eru aðgengileg á vef stofnunarinnar.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands sem unnið hafa að vistgerðakortunum.

Árið 2009 var lokið við að flokka vistgerðir á miðhálendi Íslands. Alls hafa verið skilgreindar 24 vistgerðir. Við kortlagningu vistgerða eru gömul og ný gróðurkort notuð sem grunnur. Af staffærðum gróðurkortum eru dregnar saman upplýsingar um gróðurfélög og landgerðir og þeim umbreytt í vistgerðir eftir ákveðnum lyklum.

Á undanförnum áratugum hafa orðið verulegar breytingar á gróðri á landinu. Einnig hefur tækni við gróðurkortlagningu breyst mikið. Til þess að fá góðar upplýsingar um útbreiðslu vistgerða á miðhálendinu voru öll gróðurkort endurskoðuð og staffærð. Við endurskoðunina hafa verið notaðar nýjar loft- og gervitunglamyndir og farið á vettvang í sumum tilvikum. Vistgerðakortin sem hér eru kynnt eru afrakstur þessarar vinnu. Kortin eru á pdf-formi í mælikvarða 1:50.000. Við gerð kortanna hefur Íslandi verið skipt í 338 reiti sem eru 20x20 km, en af þeim eru 162 á miðhálendinu. Lokið er við er að staffæra og endurskoða meiri hlutann af öllu miðhálendinu og verða ný vistgerðakort birt hér á vef stofnunarinnar eftir því sem verkinu vindur fram. Gróðurkort í sama reitakerfi og mælikvarða verða innan tíðar einnig aðgengileg á vef stofnunarinnar.

Fyrstu fjögur kortin sem nú eru tilbúin eru af heiðunum á Norðvesturlandi, vestan og austan Blöndu. Á hverju korti eru skýringar á íslensku og ensku. Þar kemur einnig fram hvaða gögn liggja til grundvallar og hvenær vettvangsvinna fór fram. Á kortunum eru ennfremur gefið á minna korti í mælikvarða 1: 200.000 yfirlit yfir vistlendi (yfirflokkar vistgerða) og flatarmál þeirra.

Vistgerðakort af miðhálendi Íslands í mælikvarða 1:50.000. Blaðskipting.

Vistgerðakort, blað VGK50 4551 – Áfangafell.
 

Margir starfsmenn stofnunarinnar hafa komið að verkefninu. Anette Th. Meier hannaði útlit kortanna og uppsetningu þeirra á vefnum. Guðmundur Guðjónsson verkefnisstjóri gróðurkortagerðar og þau Sigrún Jónsdóttir, Sigurður K. Guðjohnsen og Rannveig Thoroddsen hafa unnið að endurskoðun og staffæringu gróðurkorta ásamt starfsmönnum Náttúrustofu Vestfjarða og fleirum. Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur er verkefnisstjóri vistgerðarannsókna. Borgþór Magnússon, forstöðumaður vistfræðideildar, hefur haft yfirumsjón með verkinu. Nánari upplýsingar um vistgerðir og gróðurkort má finna á vef stofnunarinnar.