Vöktun íslenskra fuglastofna

24.01.2013

Náttúrufræðistofnun hefur nýlega gefið út skýrslu um vöktun á stofnum 82 tegunda íslenskra fugla, þ.e. árvissra varpfugla, fargesta og vetrargesta. Skýrslan, sem ber heitið Vöktun íslenskra fuglastofna: forgangsröðun tegunda og tillögur að vöktun, er unnin í samráði við alla þá sem sinna vöktun fugla hér á landi.

Lundi er algengasta fuglategundin á Íslandi. Varp hans hefur gengið afar illa á meginútbreiðslusvæði hans á sunnan- og vestanverðu landinu frá 2005 og stafar það af átubresti. Ljósm. Daníel Bergmann.

Tilurð skýrslunnar er sú að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fól Náttúrufræðistofnun Íslands að undirbúa vöktunarkerfi, sem ná skuli til villtra dýra og plantna, gróðurfélaga, vistgerða og vistkerfa og byggt upp með þeim hætti að það fullnægi alþjóðlegum skyldum Íslands. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þekkingu á íslenskum fuglastofnum, mati á stofnstærð hverrar tegundar og núverandi vöktunarverkefnum. Tegundum er forgangsraðað með hliðsjón af nauðsyn vöktunar og byggt á gagnsæjum og skýrum forsendum; annars vegar á hlutfallslegu mikilvægi Íslands eða Evrópu fyrir viðkomandi stofn og hins vegar á verndargildi tegundar skv. alþjóðlegum samningum og stöðu stofns hér á landi.

Á grundvelli forgangsröðunar er tegundum skipað í fjóra hópa: (A) þær sem er mjög mikilvægt að vakta, (B) þær sem er mikilvægt að vakta, (C) tegundir sem þarf að vakta og loks (D) tegundir þar sem vöktun er ekki forgangsatriði. Núverandi vöktun er talin fullnægjandi fyrir tæplega þriðjung þeirra tegunda er skipa tvo efstu hópana. Sett er fram gróf áætlun um vöktun íslenskra fuglastofna til lengri tíma.

Til þess að vakta margar fuglategundir hér á landi viðunandi hátt yrði að hleypa af stokkunum eða efla nokkur verkefni sem myndu ná til margra tegunda. Þetta á einkum við vetrarfuglatalningar (allt að 25 tegundir), punkttalningar til að meta þéttleika mófugla (allt að 19 tegundir) og vatnafuglatalningar (allt að 17 tegundir). Ýmis verkefni eru þegar í gangi og talin fullnægjandi til að vakta einstaka stofna, þar á meðal bjargfuglatalningar (5 tegundir), vöktun fugla erlendis (og að hluta hér, 9 tegundir) og loks talningar vatnafugla við Mývatn og víðar á NA-landi.

Viðtal ríkisútvarpsins við Guðmund A. Guðmundsson um skýrsluna.