Surtsey 50 ára

21.02.2013

Í nóvember á þessu ári verða liðin 50 ár frá því að neðansjávargos hófst við Vestmannaeyjar og Surtsey myndaðist. Í tilefni þess mun Surtseyjarfélagið ásamt fleirum, þar á meðal Náttúrufræðistofnun Íslands, standa fyrir alþjóðlegri afmælis- og vísindaráðstefnu í Reykjavík, dagana 12.-15. ágúst 2013.

Veggspjald um afmælis- og vísindaráðstefnu Surtseyjar í ágúst 2013.

Surtseyjargosið stóð yfir í þrjú og hálft ár og er því lengsta samfellda eldgos Íslandssögunnar. Strax í upphafi hlaut Surtsey mikla athygli almennings og vísindamanna, jafnt hérlendis sem erlendis.

Sú ákvörðum um að friðlýsa Surtsey árið 1965 var mikil framsýni og veitti náttúruvísindamönnum einstakt tækifæri til að fylgjast með hvernig eyja verður til og þróast án áhrifa mannsins. Friðlýsingin og samfelldar rannsóknir náttúruvísindamanna stuðluðu að því að í dag er Surtsey viðurkennd sem einstakt náttúruminjasvæði á heimsmælikvarða.

50 ára rannsóknarsaga og vöktun Surtseyjar hefur aukið þekkingu manna á þróun eldfjallaeyja, sérstaklega hvað varðar eldvirkni neðansjávar, myndun móbergs, landnám lífvera og þróun vistkerfa. Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Ísland hafa tekið þátt í rannsóknum á Surtsey frá upphafi goss 1963 og árlega er farið í rannsóknarleiðangur út í Surtsey.

Undirbúningur afmælis- og vísindaráðstefnu Surtseyjar er vel á veg kominn og hefur seinna kynningarbréf (2nd Circular) verið sent út. Á ráðstefnunni verður fjöldi áhugaverðra erinda um náttúrufarsrannsóknir á eldfjallaeyjum og tengdum viðfangsefnum. Innifalið í ráðstefnugjaldi er dagsferð til Vestmannaeyja, þar sem skoðaðar verða jarðminjar og lífríki Heimaeyjar undir leiðsögn fræðimanna.
Opnað var fyrir skráningu á ráðstefnuna þann 15. febrúar og verður ráðstefnugjald með afslætti fram til 1. apríl. Allar upplýsingar um ráðstefnuna, ásamt kynningarbréfi og aðgengi að skráningarsíðu, má nálgast á vef Surtseyjarfélagsins.

Ýmsar fréttir af Surtsey og umfjöllun um rannsóknaleiðangra Náttúrufræðistofnunar síðustu árin eru birtar á vef stofnunarinnar.