Framundan er tími garðaúðunar

30.05.2013

Á hverju vori kemur upp umræða um eiturúðun gegn meindýrum í görðum, hversu þörf hún er, hvort hún sé nauðsynleg og hvort rétt sé að henni staðið. Svörin við þessu eru ekki einföld og sýnist reyndar sitt hverjum. Allir ættu þó að vera sammála um að notkun eiturefna almennt í umhverfi okkar ætti ekki að vera sjálfsagður hlutur. Garðeigendur eru hvattir til að velta fyrir sér hvað eiturherferð í garðinum inniber áður en látið er til skarar skríða.

Vorið er mætt í garðana okkar. Er garðaúðun á dagskrá? Ljósm. Erling Ólafsson.

Á undanförnum árum hefur aukist umræðan um garðaúðun og hefur hún leitt til umtalsverðrar hugarfarsbreytingar. Margir garðeigendur hafa söðlað um og hætt að láta eitra á meðan nágrannar eru harðir á annarri skoðun. Dæmi eru um nágrannaerjur af þessum sökum. Margir kannast við að bankað sé upp á að kvöldlagi í júní til að bjóða upp á þessa þjónustu. Sumir sem þjónustuna bjóða kunna að vera sannfærandi um bráða nauðsyn eitrunar og eru jafnvel aðgangsharðir. Margir þiggja þjónustuna og hafa gjarnan fengið að vita að næsti nágranni hafi gert slíkt hið sama, já og þar næsti. Vilt þú vera ábyrgur fyrir því að allt fari aftur í óefni hjá nágrönnunum? Áberandi varúðarmiðar í hekkinu gefa til kynna þú sýnir samstöðu í götunni.

Fagmaður?

Skordýrafræðingur Náttúrufræðistofnunar hefur reynslu af slíkum heimsóknum og hlustað á fyrirlestur um að í óefni stefndi í garði hans nema viðeigandi ráðstafanir yrðu gerðar. Stundum sýna viðkomandi sönnun þess að þeir séu með réttindi og fullnuma í fræðunum og vara um leið við mönnum án réttinda til að veita þjónustuna, því slíkir vita ekki hvað þeir gera. Eitt sinn spurði skordýrafræðingurinn kotroskinn úðara, eftir að hann hafði varað við eftirlíkingum, hvort hann vissi hvað hann væri að gera. Hann hélt nú. Og hvað var hann þá að gera? Smá þögn, síðan svarað ormar og svoleiðis. Nú, hvaða ormar? Ekkert frekara svar fékkst við því. Þar með lauk faglegri umræðu og þjónustan að sjálfsögðu afþökkuð. Garðeigendur skulu hafa það í huga að pappír sem staðfestir að viðkomandi hafi heimild til garðaúðunar er ekki endilega trygging fyrir faglegri kunnáttu, því miður.

Víðifeti er gamalgróin tegund í görðum og náttúru. Lirfur hans éta víðilauf snemmsumars og valda skemmdum sem víðirinn jafnar sig á þegar uppvexti þeirra lýkur. Ljósm. Erling Ólafsson.
Hver er vandinn?

Því skal ekki afneitað hér að meindýr geti herjað á garðagróður og spillt honum. Ýmis kvikindi má nefna í því sambandi, sum sérhæfð á ákveðnar plöntur, önnur fjölhæf og herja á ýmsar tegundir plantna. Þá er ljóst að tegundum meindýra í görðum okkar hefur fjölgað á undanförnum árum samfara óvarlegum innflutningi á plöntum og bættum aðstæðum til að gera tilraunir með framandi plöntur vegna hlýnandi loftslags. Þar getum við sjálfum okkur um kennt. Í sjálfu sér eru langflestir skaðvalda í görðum okkar innfluttar meinsemdir í gegnum tíðina.

Það er staðreynd að sum meindýranna svokölluðu geta valdið verulegum lýti á garðagróðri og jafnvel gengið að plöntum dauðum sem þó er fátítt. Lirfur fiðrilda af nokkrum tegundum sem herja á tré og runna eru hvað stórtækastar, en hernaður þeirra er tímabundinn og þegar honum lýkur ná plönturnar sér oftast á strik og dafna ágætlega til haustsins. Af þessum tegundum eru áraskipti, skaðsemdin meiri eitt sumarið en annað. Stofnsveiflur eru alvanalegar hjá smádýrum. Önnur smádýr kunna að herja á gróðurinn allt sumarið eins og blaðlýs sem þó ganga harðast að veikburða plöntum með litla mótstöðu vegna næringarskorts eða sjúkdóma, svo og ranabjöllur og sniglar.

Rifsþéla er nýr landnemi sem hagar sér illa í upphafi landnáms. Lirfurnar éta lauf  rifsrunna og eru einkar sólgnar í stikilsberjalauf. Þær geta aflaufgað runnana á skömmum tíma. Óþarft er að úða yfir allan garðinn til að fyrirbyggja slíkt. Runninn dugar. Ljósm. Erling Ólafsson.
Í garðinum ríkir ójafnvægi

Hafa skal í huga að oftast er gróðurinn aflögufær. Það á alla vega við í náttúrulegu umhverfi í góðu jafnvægi. Það er hins vegar staðreynd að garðurinn okkar er ólíkur náttúrunni að því leyti að þar ríkir lítið sem ekkert jafnvægi. Í garðinum kann að vera samsafn plantna hvaðan æva úr heiminum, plantna sem eiga litla samleið. Garðurinn er í raun og veru nokkurs konar plöntusafn þar sem jafnvægi lífvera í sátt og samlyndi er fjarri lagi. Hann býr fjölda smádýra ákjósanleg lífsskilyrði en í þeirra heimi kann að ríkja sama ójafnvægið. Nýir landnemar mæta til leiks án náttúrulegra óvina sinna í upprunalandinu og blómstra hér sem aldrei fyrr óáreittir. Fyrstu árin kann skaðsemin af þeirra völdum að verða veruleg en að öllu jöfnu dregur úr henni að nokkrum árum liðnum. Samspil lífvera leitar ávallt eftir jafnvægi.

Er nauðsynlegt að eitra?

Rétt er að velta fyrir sér spurningunni um það hvort eiturúðun sé nauðsyn. Ekki verður fram hjá því horft að sumar plöntur eiga og munu áfram eiga erfitt uppdráttar án aðstoðar. Það má að sjálfsögðu spyrja sig hvort ekki væri skynsamlegast að leggja frekar áherslu á ræktun plantna sem betur vegnar því af nógum slíkum er að taka. Ekki vantar úrvalið. Því skal alla vega haldið fram hér að allsherjar úðun eiturefna yfir garðinn gjörvallan og trén hátt sem lágt með kröftugum þrýstidælum er hreinasta fyrra. Úðunarmenn sem mæta og bjóða upp á sérhæfða eitrun gegn t.d. fiðrildalirfum, blaðlúsum, köngulóm, hafa lítinn skilning á verkefninu. Eitur eru eitur og ekki á nokkurn hátt sérhæfð á ákveðin kvikindi. Þau drepa öll smádýr sem fyrir þeim verða, líka þau góðu og nauðsynlegu sem eru miklum mun fleiri en óþurftargemlingarnir. Í hinum stóra hópi góðra eigum við marga samherja sem leggja sitt af mörkum við að halda meinsemdum niðri. Garðaúðun spornar gegn því að jafnvægi náist í garðinum og kallar á endurtekinn hernað á sumri hverju.

Meta skal ástandið fyrst

Því miður fara margir úðunarmenn um garða meira af kappi en forsjá og án þess að hugað sé að því fyrst hvort nokkur vandi sé í uppsiglingu. Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að meta ástandið fyrst og kanna hvort í vandræði stefni áður en látið er til skarar skríða. Það væri einkar gagnlegt ef einhverjir garðyrkjumenn myndu kynna sér meindýr og meinsemdir sérstaklega vel og sérhæfa sig í að veita garðeigendum þá þjónustu að meta ástandið í garðinum og leiðbeina um takmarkaða aðgerð ef þurfa þætti.

Humlurnar eru vinir vors og blóma og til fagnaðar í görðum okkar. Garðhumludrottning. Ljósm. Erling Ólafsson.
Garðurinn okkar er vistkerfi

Því skal ekki gleymt að garðurinn er lífríki með jafnt stóru sem smáu og fjölmörgu ósýnilegu sem er virkni kerfisins bráðnauðsynlegt. Hann er vistkerfi. Í garðinum þrífst fjölskrúðugt dýralíf oftast í hinni mestu sátt við plönturnar og þeim jafnvel til hins mesta gagns. Hafa skal í huga humlurnar og fjölmörg önnur smádýr sem þjónusta blómin dyggilega með því að fræva þau, sníkjuvespurnar sem hemja fjölgun fiðrildalirfa og blaðlúsa, sveifflugurnar og birkiglyrnurnar sem hakka í sig blaðlýsnar, köngulærnar sem sumir láta eitra fyrir sérstaklega, en þær eru í raun sannir bandamenn okkar, veiða marga meinsemdina í vefi sína. Og ekki má gleyma ánamöðkunum. Þess er jafnan tekið fagnandi þegar smáfugl sýnir það traust að byggja sér hreiður í garðinum. Fuglinn gefur garðinum ákveðið heilbrigðisvottorð. Fiðrildalirfur á trjám og runnum eru uppistaða í fæðu hans og flestar þeirra vaxa einmitt upp á sama tíma og hann elur unga sína í hreiðri, þ.e. í júní. Lirfa sem innbyrt hefur eitur er ekki góður matur í ungans gogg.

Af sveifflugum finnast ýmsar tegundir í görðum okkar sem eiga það sameiginlegt að lirfur þeirra flestra éta blaðlýs og höggva skörð í hjarðir þeirra. Blómsveifa. Ljósm. Erling Ólafsson.
Hverjum ber að rækta garðinn sinn

Áhugi margra garðeigenda á tilraunastarfsemi er vel skiljanlegur. Metnaðarfull garðrækt er gefandi áhugamál og mörgum hrein lífsgæði. En metnaðarfullir garðræktendur þekkja flestir plönturnar sínar og fylgjast með heilbrigði þeirra. Það er þeim í lófa lagið að grípa í tauma þegar vart verður við vanlíðan af völdum smádýra hjá ákveðnum plöntum. Það gæti dugað vel að úða vægu eitri á þær plöntur einar sem stefna í vandræði, jafnvel grænsápulegi sem gæti dugað fullt eins vel. Þá skal haft í huga að veröld smádýranna er dásamlegt undur og endalaus uppspretta fróðleiks og uppgötvana hjá þeim sem veita henni athygli, að garðræktendum meðtöldum.

Hvað segir ekki málshátturinn: Hverjum ber að rækta garðinn sinn, í óeiginlegri merkingu reyndar en þó ekki einvörðungu...

Fræðast má um pöddur í garðinum og nýja landnema á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.