Mat á líffræðilegri fjölbreytni Norðurslóða

03.06.2013

Nýlega voru gefnar út á vegum CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna) og Norðurskautsráðsins þrjár skýrslur sem eru afurð verkefnisins Arctic Biodiversity Assessment. Í skýrslunum, sem byggja á vísindalegum athugunum og þekkingu frumbyggja á Norðurslóðum, er staða lífríkisins metin og fjallað um þær breytingar sem eiga sér stað, ásamt því sem gerðar eru tillögur til stefnumótenda um hvernig beri að vernda lífríkið.

Heimskautarefur. Í Arctic Biodiversity Assessment kemur fram að loftslagsbreytingar eru langalvarlegasta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika á Norðurslóðum. Ljósm. Carsten Egevang/ARC-PIC.com

Norðurheimskautið er heimkynni yfir 21.000 tegunda lífvera, þ.m.t. tegunda sem lifa svo til einungis á Norðurheimskautssvæðinu. Má þar nefna spendýr sem hafa aðlagað  sig vel að kulda, fugla, fiska, hryggleysingja, plöntur, sveppi og örverur sem hvergi er að finna annarstaðar í heiminum. Lífríki norðursins er gríðarlega mikilvægt fyrir lífsskilyrði íbúa á svæðinu og meira en einn tíundi af fiskafla heimsins kemur úr höfunum umhverfis Norðurskautið. Farfuglar koma til Norðurheimskautsins hvaðan æfa að úr heiminum á varpstöðvar og tengja með því Norðurheimskautið við allar heimsálfur.

Lífríki Norðurslóða á undir högg að sækja en með markvissum aðgerðum má varðveita þetta tiltölulega ósnortna vistkerfi sem eru m.a. samsett úr túndru, fjalllendi, ferskvatni og hafi, og þær verðmætu afurðir sem vistkerfi norðursins  veita. Aðgerðir núna gætu komið í veg fyrir breytingar sem annars yrði kostnaðarsamt eða ómögulegt að takast á við í framtíðinni.

Skýrslurnar sem nú hafa verið birtar eru unnar af 260 vísindamönnum, mörgum hverjum leiðandi á sínu sviði. Fjórir sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands eru meðal höfunda, þau Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur, Hörður Kristinsson fléttufræðingur, Kristinn P. Magnússon sameindaerfðafræðingur og Ævar Petersen fuglafræðingur, auk þess sem fleiri komu að verkefninu á einn eða annan hátt. Trausti Baldursson, Náttúrufræðistofnun Íslands, er fulltrúi Íslands í CAFF. Skýrslurnar voru kynntar fyrir ráðherrum Norðurheimskautaríkjanna átta þann 15. maí sl. Í þeim er lífríki Norðurslóða í fyrsta sinn metið á heildstæðan hátt. Í skýrslunum er:

  • Kápa skýrslunnar Arctic Biodiversity Assessment: Status and trends in Arctic biodiversity.
    lagður grunnur að frekari rannsóknum á Norðurslóðum
  • fjallað um nýjustu upplýsingar um störf vísindamanna á Norðurslóðum, ásamt því að haldið er utan um þekkingu frumbyggja
  • tíundaðir eru þeir málaflokkar þar sem þekking er ekki næg
  • megin orsakavöldum breytinga á Norðurslóðum er lýst
  • ráðleggingar vísindamanna hvernig megi draga úr áhrifum helstu áhrifaþátta á lífríki Norðurslóða

Lykilniðurstöður eru eftirfarandi:

  • Veðurfarsbreytingar eru helsti og alvarlegasti orsakavaldur breytinga á Norðurslóðum
  • Mikilvægt er að takast á við breytingar með heildrænum hætti
  • Mikilvægt er að tillit sé tekið til vistkerfisins innan allra málaflokka

Hægt er að nálgast pdf útgáfu af skýrslunum á vef Arctic Biodiversity Assessment.