Folaflugusprengja!

23.08.2013

Risastórar hrossaflugur vekja á sér athygli þessa dagana á húsveggjum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þetta er svokölluð folafluga. Hún er miklum mun stærri en þær sem við áttum að venjast fram að því að hún birtist hér á landi undir aldamótin síðustu, þá fyrst í Hveragerði. Frá því að hún sást fyrst í höfuðborginni 2010 hefur henni fjölgað með ári hverju og virkilega náð að springa út í sumar. Auk þess er hún að færa út kvíarnar.

Fjöldi folaflugna á húsvegg í Vestmannaeyjum 14. ágúst 2013. Ljósm. Erling Ólafson.

Landnám folaflugunnar hefur gengið með eindæmum vel og er líklegt að úrkomusöm tíðin í sumar hafi hjálpað til og ýtt undir fjölgunina í ár. Að öllum líkindum hefur flugan auk þess stækkað landnámssvæðið til muna í sumar. Hún hefur til þessa fundist með vissu á höfuðborgarsvæðinu upp í Kollafjörð, í Ölfusi, Fljótshlíð og undir Eyjafjöllum.

Það vakti athygli skordýrafræðings Náttúrufræðistofnunar þegar Heimaey var sótt heim fyrir skemmstu að þar var mikill fjöldi folaflugna á húsveggjum og hafði hann ekki áður gengið fram á viðlíka þéttleika þeirra. Ekki var honum kunnugt um tegundina fyrr í Vestmannaeyjum. Þangað gæti hún hafa borist með vindum léttilega. Það má því gera ráð fyrir folaflugan sé komin mun víðar um Suðurland og jafnvel til annarra landshluta.

Folaflugur leggja drög að frekari fjölgun í Vestmannaeyjum 14. ágúst 2013. Ljósm. Erling Ólafson.

Folaflugan er auðþekkt frá minni ættingjum sínum, s.s. trippaflugunni sem situr á veggjum þessa dagana henni til samlætis. Folaflugan er áberandi mun stærri og karlflugurnar áberandi lappalengri. Hún situr auk þess öðru vísi með vængi sína út frálíkamanum og vita þeir lítillega upp og aftur. Frænkan fellir vængina flata saman yfir afturbolnum.

Folafluga er enginn aufúsugestur þar sem hún er skaðvaldur á gróðri ólíkt náskyldum tegundum.  Það má kynna sér betur lífshætti hennar á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.