Vísindatilraun á Vaðlaheiði

20.08.2013

Á Vaðlaheiði fer nú fram rannsókn á aðlögunarhæfni toppasteinbrjóts á vegum Náttúrugripasafns Lúxemborgar. Náttúrufræðistofnun Íslands kemur að verkefninu.

Guy, Lucile, Linda og Tania við uppsetningu tilraunarinnar. Ljósm. Starri Heiðmarsson

Grasafræðingar frá Náttúrugripasafni Lúxemborgar hafa undanfarin ár stundað rannsóknir á toppasteinbrjóti en sú tegund vex auk Íslands víða um Evrópu. Hluti rannsóknarinnar felst í samanburði á aðlögunarhæfni einstaklinga frá mismunandi stöðum. Lifandi eintökum af toppasteinbrjóti var safnað á Íslandi fyrir tveimur árum og þau ræktuð við staðlaðar aðstæður í Luxemborg til að kanna hvernig íslensku toppasteinbrjótarnir brygðust við hlýrra loftslagi. Annar hluti rannsóknarinnar er að kanna lífsmöguleika toppasteinbrjóta frá Lúxemborg við íslenskar aðstæður og var í því skyni girtur af u.þ.b. 100 fermetra skiki í landi Ness á Vaðlaheiði og þar gróðursettir 200 einstaklingar af toppasteinbrjóti, bæði íslenskum og lúxemborgskum. Tilraunin er til tveggja ára og verða afföll könnuð sumarið 2014 og 2015 þegar tilrauninni lýkur.

Hér eru Linda og Tania að gróðursetja toppasteinbrjótana. Ljósm. Starri Heiðmarsson.

Rannsóknin á Vaðlaheiði er hluti af doktorsverkefni Lucile Decanter sem hún vinnur undir handleiðslu Guy Collin. Tengiliður þeirra á Íslandi er Starri Heiðmarsson, grasafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands. Auk þeirra unnu Tania Walisch og Linda Ársælsdóttir að uppsetningu tilraunarinnar. Aðstandendur rannsóknarinnar vilja þakka Sigurlínu Halldórsdóttur, Nesi fyrir lán á landi til rannsóknarinnar.

Toppasteinbrjótur – Saxifraga rosacea – líkist mjög þúfusteinbrjóti og hefur löngum ekki verið aðgreindur frá þeirri tegund hérlendis. Toppasteinbrjótur er tiltölulega algengur og útbreiddur um allt land en útbreiðsla tegundarinnar er ekki vel þekkt. Frekari upplýsingar um toppasteinbrjót má finna á vefnum Flóra Íslands.

Ýtrasta varkárni er viðhöfð við uppsetningu tilraunarinnar þannig að ekki sé hætta á að lúxemborgsku toppasteinbrjótarnir sleppi út í íslenska náttúru. Eintökin sem flutt voru inn frá Lúxemborg voru flutt inn án nokkurs jarðvegs og þeim plantað í mómold í gróðurhúsi Lystigarðsins á Akureyri. Þess var sérstaklega gætt að engir villtir toppasteinbrjótar yxu í grennd við tilraunina þannig að blöndun við íslenska stofna á ekki að vera mögulega. Að tilrauninni lokinni verða þau eintök af toppasteinbrjóti sem enn lifa fjarlægð og þau ræktuð áfram í Lystigarðinum á Akureyri.

Hluti toppasteinbrjótanna áður en þeir voru settir niður í melinn á Vaðlaheiði. Ljósm. Starri Heiðmarsson.
 
Toppasteinbrjótur bíður örlaga sinna á nýjum stað, mun hinn íslenski vetur ríða honum að fullu? Ljósm. Starri Heiðmarsson.