Rjúpnaveiði 2013

25.09.2013

Umhverfisráðherra hefur ákveðið fyrirkomulag rjúpnaveiða 2013 og fallist á ráðleggingar Náttúrufræðistofnunar um ráðlagða rjúpnaveiði upp á 42.000 fugla. Með því að deila ráðlagðri veiði á fjölda skráðra rjúpnaveiðimanna undanfarin ár má þannig gera ráð fyrir 6 til 7 rjúpum á hvern veiðimann.

Rjúpukarri á flugi. Ljósm. Daníel Bergmann.

Rjúpnaveiði 2013 verður heimiluð í 12 daga og þessir dagar dreifast á fjórar helgar með eftirfarandi hætti:

 • Föstudaginn 25. október til sunnudags 27. október.
  3 dagar.
 • Föstudaginn 1. nóvember til sunnudags 3. nóvember.
  3 dagar.
 • Föstudaginn 8. nóvember til sunnudags 10. nóvember.
  3 dagar.
 • Föstudaginn 15. nóvember til sunnudags 17. nóvember.
  3 dagar

Stærð rjúpnastofnsins sveiflast reglubundið og hafa 10 til 12 ár verið á milli hámarksára. Síðasta hámark var árið 2010. Um þessar mundir er rjúpnastofninn niðursveiflu en miðað við fyrri reynslu má búast við að stofninn nái lágmarki á árabilinu 2015 til 2018. Þá benda fyrirliggjandi gögn til þess að veiðar hafi þau áhrif að afföll verði til viðbótar þeim rjúpum sem skotnar eru. Uppsveifla í rjúpnastofninum 2012 til 2013 kom mjög á óvart og helgaðist af því að viðbótarafföll vegna skotveiða voru mjög lág.

Áfram verður sölubann í gildi á rjúpu og rjúpnaafurðum og ákveðið svæði á Suðvesturlandi verður sömuleiðis áfram friðað fyrir veiði.

Frá því að rjúpnaveiðar hófust að nýju árið 2005 hafa rjúpnaveiðimenn verið virkir þátttakendur í að draga úr veiðum á rjúpu í því skyni að vernda stofninn. Ljóst er að á því niðursveiflutímabili sem rjúpnastofninn er í þurfa allir að leggjast á eitt, svo hægt sé að tryggja sjálfbæra nýtingu rjúpnastofnsins. Þetta fyrirkomulag á að gilda í a.m.k. þrjú ár.

Sjá nánar greinargerð Náttúrufræðistofnunar Íslands til umhverfisráðherra.