Varði doktorsritgerð í dýravistfræði í um íslensku kríuna

09.09.2013

Freydís Vigfúsdóttir líffræðingur varði doktorsritgerð sína Drivers of productivity in a subarctic seabird: Arctic Terns in Iceland 14. febrúar s.l. við University of East Anglia í Norwich, Englandi. Prófdómari var Dr. Keith Hamer, Leeds University.

Freydís við mælingar á vaxtaþroska unga, þar sem mældur var vængur, höfuð og þyngd. Ljósm. Rebecca Laidlaw.

Í doktorsnámi sínu rannsakaði Freydís lýðfræði og áhrifaþætti á viðkomubrest kría á Vestur- og Norðausturlandi með áherslu á afkomu og vaxtarþroska unga og tímasetningu atburða ungadauða m.t.t. áhrifa veðurs, fæðu og afráns. Rannsóknir fóru fram á Snæfellsnesi og á Melrakkasléttu í samtals 16 kríubyggðum á árunum 2008-2011.

Kríuvarpið á Rifi á Snæfellsnesi. Ljósm. Freydís Vigfúsdóttir.

Rannsóknin leiddi í ljós að þrátt fyrir að viðkoma kríu væri breytileg milli byggða, þá var hún yfirleitt mjög léleg, bæði á Vestur- og Norðausturlandi, vegna lélegrar afkomu unga. Meginorsök lélegrar ungaafkomu var hægur vaxtarþroski á snemmungastigi áður en ungar urðu fleygir, en með meinafræðilegum aðferðum mátti sjá að ungar drápust yfir allan varptímann og á öllum aldri, án teljandi áhrifa veðurs eða afráns. Samsetning fæðu og tíðni fæðugjafa var breytileg milli landsvæða og milli varpsvæða innan sömu landsvæða.

Kría færir unga sandsíli í einum af rannsóknarreitunum á Snæfellsnesi. Ljósm. Freydís Vigfúsdóttir.

Næringarmesta og mikilvægasta fiskifæðan á Vesturlandi var síli Ammodytes spp. en loðna, Mallotus villosus, á Norðausturlandi. Önnur fæða með lágu næringargildi og ekki af hafrænum uppruna var einnig stór hluti af fæðunni á báðum landsvæðum. Varpárangur á Vesturlandi var betri í byggðum þar sem fæðugjafir voru tíðari eða næringargildi fæðu hærra. Á Norðausturlandi var varpaárangur mjög lélegur í öllum byggðum enda fæðugjafir mjög óreglulegar eða fæðan af lélegum gæðum. Meginorsök varpbrests á báðum rannsóknarsvæðum yfir rannsóknartímann var því rakinn til skorts á viðunandi ungafæðu, en margskonar breytingar í fæðukeðjunni og breytileiki á framboði fæðu virðist hafa neikvæð áhrif á varpárangur kría á Íslandi. Ekki er ólíklegt að þar á meðal gæti áhrifa fiskveiða á framboð loðnu og/eða loftlags- og haffræðilegra breytinga á magn og framboð sílis, sem er ekki veitt við Ísland. Breytingar þessar eru líklegar til að hafa áhrif á aðra fuglastofna, sem hafa einnig margir hverjir sýnt lakan varpárangur eða fækkun varppara á síðastliðnum árum.

Freydís vann að doktorsverkefni sínu við University of East Anglia í Norwich í Bretlandi í nánu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskólasetur Snæfellsness. Aðalleiðbeinandi var dr. Jennifer A. Gill við UEA og meðleiðbeinandi var dr. Tómas G. Gunnarsson forstöðumaður Háskólaseturs Suðurlands, ásamt dr. Guðmundi A. Guðmundssyni á Náttúrufræðistofnun Íslands og dr. Aldina Franco við UEA.

Tæplega vikugamall kríuungi vigtaður. Ljósm. Freydís Vigfúsdóttir.

Eintak af doktorsritgerð Freydísar er til á bókasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands í Garðabæ. Á bókasafninu er einnig að finna tímaritið Bird study en í því birtist forsíðugrein eftir Freydísi, sem var hluti af doktorsritgerðinni: Annual and between-colony variation in productivity of Arctic Terns in West Iceland.