Alþjóðleg melrakkaráðstefna heppnaðist vel

29.10.2013

Dagana 11.-13. október s.l. var haldin alþjóðleg ráðstefna um líffræði melrakkans á Hótel Núpi í Dýrafirði. Fjallað var um rannsóknir á melrakka frá ólíkum sjónarmiðum og ýmsum sviðum líffræðinnar og var ráðstefnan vel sótt af vísindamönnum víða að úr heiminum.

Þátttakendur á alþjóðlegri ráðstefnu um melrakka á Núpi í Dýrafirði í október 2013. Ljósm. Melrakkasetur Íslands.

Þetta var í fjórða skipti sem alþjóðlega ráðstefnan um melrakkann (International conference in Arctic Fox Biology) var haldin en hún er haldin á fjögurra ára fresti og nú í fyrsta sinn á Íslandi. Á ráðstefnunni voru vísindamenn frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Rússlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Þýskalandi, Nýja-Sjálandi og Íslandi.

Haldnir voru 22 fyrirlestrar á fjórum sviðum, þ.e. samskipti við aðrar tegundir og menn; lífeðlisfræði og erfðafræði; verndun og stjórnun og stofnvistfræði. Einnig voru rannsóknaverkefni kynnt á veggspjaldasýningu. Hægt er að kynna sér erindin og veggspjöldin á sýningu Melrakkaseturs Íslands.

Melrakkasetur Íslands hafði umsjón með ráðstefnunni í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða, Háskóla Íslands, Vesturferðir, Borea Adventures og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Frétt um ráðstefnuna á vef Melrakkaseturs Íslands