Til hamingju Surtsey 50 ára

14.11.2013
Surtsey
Picture: Erling Ólafsson
Surtsey er 50 ára

Þann 14. nóvember 1963 reis Surtsey úr sæ um 18 km suðvestur af Heimaey. Óljóst er hvenær eldgosið hófst í raun og veru en það gæti hafa verið fáeinum dögum fyrr. Eyjan byggðist upp af 130 metra dýpi áður en hún náði upp úr sjó. Þessi atburður vakti þegar heimsathygli.

Eldvirknin hófst með gjóskugosi, fyrst frá einum síðan tveim eldgígum sem hlóðu gjóskubunkum upp í 174 metra hæð yfir sjávarflötinn. Þegar hraungos hófst að fimm mánuðum liðnum frá byrjun gossins fylltust menn bjartsýni á að eyjan væri komin til að vera til frambúðar. Það varð þá ljóst að þarna hefði boðist einstakt tækifæri til rannsókna og stórra spurninga var þegar spurt. Hvernig mun eyjan byggjast upp úti í opnu hafi og standast álögur ógnarkrafta rofaflanna? Hvernig koma lífverur til með að berast til eyjarinnar? Hvernig mun lífverunum vegna á ördauðu landi? Framsýnir menn á þessum tíma brugðust snarlega við og sáu til þess að Surtsey var friðuð árið 1965 og umferð um hana óheimil nema til rannsókna og tengdra athafna. Fræðimenn, bæði íslenskir og erlendir, tóku saman höndum, skipulögðu rannsóknir og stofnuðu Surtseyjarfélagið sem ramma utan um starfsemina.

Það er skemmst frá því að segja að rannsóknum hefur verið haldið gangandi samfellt allar götur síðan, jafnt á sviðum jarðfræði og líffræði. Fylgst hefur verið með því hvernig Surtsey hefur á þessum 50 árum látið undan ágangi sjávar og slagviðra og minnkað um helming frá því hún varð stærst 2,65 km2 að flatarmáli við lok eldvirkninnar í júní 1967. Einnig hefur verið fylgst með landnámi lífvera frá upphafi og landnámssagan skilgreind og skráð frá ördauðri gjósku og beru hrauni til gróðursældar iðandi af smádýrum og gargandi fuglalífi. Þessi saga öll varð til þess að í júlí 2008 var eldstöðin Surtsey tekin upp á Heimsminjaskrá UNESCO og þar með staðfest að verðmæti hennar og rannsóknasögunnar væri á heimsmælikvarða.

Þessari sögu er hvergi nærri lokið. Ferlið er enn í fullum og hröðum gangi, meira að segja svo hröðum að á ári hverju má merkja verulegar breytingar á þroska lífríkisins að jarðfræðiferlunum ógleymdum. Því fer víðs fjarri að lokastigið sé innan seilingar. Það sést berlega þegar horft er til annarra smáeyja Vestmannaeyjaklasans. Þær voru allar Surtseyjar á sínum tíma í fyrndinni. Það er afar mikilvægt að samfellan í rannsóknum haldist svo lengi sem færi gefst og ekki látið undan ásókn ferðafrömuða sem vilja opna eyna ferðamönnum. Lokun hennar fyrir almenna umferð er forsenda þess að framvindan verði tryggð áfram með lágmarksáhrifum frá mönnum. Auk þess er lokunin forsenda þess að Surtsey sómi sér áfram á Heimsminjaskrá UNESCO. Ísland á ekki annað náttúrufyrirbæri á þeirri merku skrá.