Fyrsta grasafræðings Náttúrufræðistofnunar minnst

08.05.2014
Guðni Guðjónsson

Guðni Guðjónsson grasafræðingur

Í lok aprílmánaðar var Náttúrufræðistofnun Íslands færð að gjöf ljósmynd af Guðna Guðjónssyni grasafræðingi (1913-1948), en hann var fyrsti forstöðumaður grasadeildar Náttúrugripasafnsins. Það var Sigrún dóttir Guðna sem afhenti Jóni Gunnari Ottóssyni forstjóra Náttúrufræðistofnunar myndina.

Guðni Guðjónsson var með efnilegustu grasafræðingum síns tíma. Hann fæddist í Reykjavík 18. júlí 1913 og lauk námi við Menntaskólann tuttugu árum síðar, vorið 1933. Á skólaárunum var íslensk náttúra hugðarefni sem hann tók ástfóstri við og tók hann að kynna sér gróðurríki Íslands. Að loknu menntaskólanámi varð Guðni strax staðráðinn í að nema grasafræði og sigldi um haustið til Kaupmannahafnar. Þar bjó hann í 15 ár, fyrst við nám en síðar við rannsóknir. Viðfangsefni hans beindust einkum að erfðafræði plantna, m.a. á tegundum skyldum maríustakki og túnfíflum.

Hugur Guðna stefndi ávallt á framtíðarstarf á Íslandi. Hann hafði mikla trú á framtíð íslenskra náttúruvísinda sem til þessa höfðu búið við þröngan hag. Hann skrifaði ritgerð þar sem hann hvatti íslensk stjórnvöld til að taka til sinna ráða til og sjá til þess að höfuðrit um náttúru landsins birtust ekki í öðrum löndum undir stjórn erlendra manna heldur yrðu rannsóknirnar í okkar eigin höndum. Hann sá ósk sína rætast og var honum veitt staða deildarstjóra grasadeildar Náttúrugripasafnsins sumarið 1948 og varð hann þar með fyrsti grasafræðingur safnsins, sem síðar fékk heitið Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann hafði lengi borið fyrir brjósti framtíð safnsins og safnaði fyrir það t.a.m. talsverðu af plöntum í Noregi og Grænlandi.  Það var einnig mest fyrir hans frumkvæði að safninu hlotnaðist árið 1948 höfðingleg gjöf prófessors Skottsberg, um 5000 tegundir norrænna jurta.

Í lok ársins 1948 vann hann með samstarfsmönnum sínum að flutningi Náttúrugripasafnsins í ný húsakynni. Þá kenndi hann sér skyndilega meins og var fluttur á spítala þar sem hann lést af hjartabilun aðfaranótt gamlársdags.

Guðni lét eftir sig eiginkonu, Álfheiði Kjartansdóttur. Eignuðust þau eitt barn, Sigrúnu, sem var á fyrsta ári er faðir hennar lést.

Afhending myndar af Guðna Guðjónssyni grasafræðingi

Sigrún Guðnadóttir afhendir Jóni Gunnari Ottóssyni forstjóra mynd af föður sínum, Guðna Guðjónssyni grasafræðingi.