Mikið af grasfrjóum í júní

15.07.2014
nýskriðið vallarfoxgras
Picture: Margrét Hallsdóttir

Vallarfoxgras í Urriðaholti í Garðabæ.

Talsvert var um grasfrjó í lofti í júní og það sem af er júlí. Í Garðabæ hefur frjótala grasa þrisvar sinnum farið yfir 100 það sem af er sumri og alls níu sinnum yfir 50. Á Akureyri hefur aldrei áður mælst jafn mikill fjöldi grasfrjóa í júní. Þegar frjótala grasa fer yfir 50 eru miklar líkur á því að ofnæmissjúklingar finni fyrir einkennum.

Hæst mældist frjótala grasa 221 frjó/m3 þann 11. júní. Þrátt fyrir stóran topp í fjölda grasfrjóa í Garðabæ er frjótíma grasa hvergi nærri lokið en búast má við að hann geti jafnvel staðið fram í lok ágúst.

Á Akureyri var sett met í fjölda grasfrjóa í lofti í júní. Heildarfjöldi grasfrjóa varð 325, áður mældist heildarfjöldi grasfrjóa mestur 106 í júní fyrir 10 árum síðan, árið 2004. Á Akureyri hafa frjótölur þó verið heldur lægri en fyrir sunnan og mældist frjótalan hæst 42 frjó/m3 þann 24. júní.

Bæði á Akureyri og í Garðabæ hefur frjótala grasa sveiflast mikið. Samkvæmt Veðurstofu Íslands má búast við áframhaldandi úrkomu á landinu næstu daga en rigning sér um að hreinsa loftið og ættu því ofnæmissjúklingar að geta andað léttar næstu dagana.

Óvenju lítið mældist af birkifrjóum í júní í Garðabæ og fremur fá mældust einnig í maí. Á Akureyri stóð frjótími birkis fram í miðjan júní en hámarkið varð í lok maí að þessu sinni.

Nánari upplýsingar um frjómælingar í júní.