Mikið um grasfrjó í lofti í júlí

08.08.2014
Útsprungið fjallafoxgras (Phleum alpinum)
Picture: Lára Guðmundsdóttir
Útsprungið fjallafoxgras (Phleum alpinum).

Gríðar mikið var um grasfrjó í lofti í góðviðrinu á Akureyri í júlí og féllu ýmis met. Í bleytunni á höfuðborgarsvæðinu í júlí mældust grasfrjó yfir meðallagi í Garðabæ. Þrátt fyrir háar frjótölur í júlí er frjótíma grasa ekki lokið en algengast er að fjöldi grasfrjóa nái hámarki um mánaðarmótin júlí og ágúst. 

Grasfrjó í lofti hafa aldrei mælst fleiri á Akureyri í júlí síðan mælingar hófust árið 1998 en heildarfjöldi þeirra var 2389 frjó/m3. Frjótala grasa var hæst 345 frjó/m3 þann 24. júlí en áður hafði frjótala hæst orðið 341 frjó/m3 þann 18. ágúst 2003 og því um nýtt met að ræða. Alls mældist frjótala grasa 50 frjó/m3 eða hærri í 12 daga en þegar frjótala fer yfir 50 frjó/m3 telst vera mikil áhætta á ofnæmisviðbrögðum. Heildarfjöldi grasfrjóa það sem af er sumri hefur nú þegar mælst hærri en nokkru sinni áður en fjöldi grasfrjóa er komin í 2720 frjó/m3. Áður hafði heildarfjöldi grasfrjóa hæst farið í 2488 frjó/m3 sumarið 2003.

Þrátt fyrir talsverða úrkomu á höfuðborgarsvæðinu í júlí varð heildarfjöldi grasfrjóa 787 frjó/m3 sem er yfir meðallagi áranna 2011–2013. Alls varð frjótala grasa fimm sinnum 50 frjó/m3 eða hærri og varð hæst 144 frjó/m3 þann 29. júlí. Heildarfjöldi grasfrjóa það sem af er sumri er jafnframt kominn fram úr heildarfjölda áranna 2011–2013, líkt og fyrir norðan.

Búast má við að verði veður þurrt og stillt geti komið dagar í ágúst þar sem frjótölur grasa verða háar. Á Akureyri er algengast að ágúst sé aðal grasmánuðurinn en síðast liðin ár hefur hámark grasfrjóa á höfuðborgarsvæðinu verið í júlí. Því getur reynst erfitt að spá fyrir um framhaldið.

Nánari upplýsingar um frjómælingar í júlí (pdf).