Nýr ráðherra í heimsókn

Nýr umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir heimsótti Náttúrufræðistofnun Íslands í gær, fimmtudaginn 8. janúar, í þeim tilgangi að kynna sér starfsemi stofnunarinnar og hitta fyrir starfsfólk. Með ráðherra í för voru aðstoðarmaður hans, ráðuneytisstjóri, ritari ráðherra, upplýsingafulltrúi og skrifstofustjóri skrifstofu landgæða hjá ráðuneytinu.
Ráðherrann átti fund með forstjóra og forstöðumönnum stofnunarinnar þar sem hlutverk, starfsemi og helstu verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands voru kynnt og rædd. Að fundi loknum var gengið um stofnunina, húsnæðið skoðað og starfsemin kynnt frekar.
Sigrún Magnúsdóttir tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra á ríkisráðsfundi á gamlársdag og tók hún við lyklum að ráðuneytinu í byrjun ársins úr höndum Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Aðstoðarmaður ráðherra er Ingveldur Sæmundsdóttir.