Ný skýrsla um ágengar, framandi tegundir

08.06.2015

Náttúrufræðistofnun Íslands tók nýverið þátt í verkefni á vegum NOBANIS (European Network on Invasive Alien Species) sem fólst í að kortleggja með hvaða hætti ágengar, framandi tegundir berast til landa í Norður-Evrópu. Einnig var lagt mat á hvaða tegundir gætu hugsanlega flokkast sem ágengar.

Náttúrufræðistofnun Íslands tók nýverið þátt í verkefni á vegum NOBANIS (European Network on Invasive Alien Species) sem fólst í að kortleggja með hvaða hætti ágengar, framandi tegundir berast til landa í Norður-Evrópu. Einnig var lagt mat á hvaða tegundir gætu hugsanlega flokkast sem ágengar.

Forsíða skýrslunnar: Invasive Alien Species: Pathway Analysis and Horizon Scanning for Countries in Northern Europe

Fjallað er um verkefnið og niðurstöður þess í skýrslunni Invasive Alien Species: Pathway Analysis and Horizon Scanning for Countries in Northern Europe. Hún er unnin í samvinnu Norrænu ráðherranefndarinnar og tíu landa og svæða sem aðild eiga að NOBANIS. Það eru Danmörk, Eistland, Finnland, Færeyjar, Ísland, Lettland, Litháen, Noregur, Svalbarði og Svíþjóð.

Í skýrslunni er fjallað um með hvaða leiðum ágengar, framandi tegundir berast til landa í Norður-Evrópu og þær flokkaðar eftir mikilvægi. Einnig voru tegundir metnar með tilliti til hættu á að þær reynist ágengar. Niðurstöðunum er ætlað að auðvelda löndunum að stemma stigu við aðflutningi og landnámi tegundanna. Í skýrslunni er ennfremur að finna viðbragðsáætlanir og almenn ráð til að fylgjast með og draga úr landnámi ágengra, aðfluttra tegunda.

Tilgangur verkefnisins er að uppfylla skyldur samningsins um líffræðilega fjölbreytni (CBD) og stefnu Evrópusambandsins um líffræðilega fjölbreytni (EU Biodiversity Strategy 2020).

Pawel Wasowicz grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er fulltrúi Íslands í stjórn NOBANIS og tók hann þátt í rannsókninni.