Vinnustofa um vöktun náttúruverndarsvæða

07.02.2020
Rannveig Anna Guicharnaud flytur erindi á vinnustofu verkefnisins „Vöktun náttúruverndarsvæða“
Picture: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Rannveig Anna Guicharnaud verkefnisstjóri verkefnisins „Vöktun náttúruverndarsvæða“ flytur erindi á vinnustofunni 4. febrúar 2020.

Fyrsta vinnustofa verkefnisins Vöktun náttúruverndarsvæða var haldin á Náttúrufræðistofnun Íslands dagana 4.–5. febrúar 2020. Meginmarkmið verkefnisins er að setja á laggirnar heildstæða vöktunaráætlun á landsvísu til vöktunar náttúruminja á náttúruverndarsvæðum og öðrum svæðum sem eru undir álagi vegna ágangs ferðamanna.  Áhersla verður lögð á að vakta áhrif mannsins á vistgerðir og plöntur, fugla, spendýr og jarðminjar.

Vöktunaráætlunin er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa á landinu, Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs, Þjóðgarðsins á Þingvöllum og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og er sett á laggirnar af frumkvæði umhverfis-og auðlindaráðuneytisins. Þetta er í fyrsta sinn sem svo margar stofnanir sem vinna að því að vernda og rannsaka náttúru landsins vinna saman að þróun og mótun heildrænnar vöktunaráætlunar á landsvísu.

Fulltrúar frá öllum stofnununum tóku þátt í vinnustofunni. Hópurinn var fjölbreyttur og samanstóð af forstöðumönnum náttúrustofa, vísindamönnum, þjóðgarðsvörðum og landvörðum. Verkefnum var skipt á tvo vinnudaga. Fyrri daginn var unnið í faghópum (vistgerðir og plöntur, jarðminjar, fuglar og spendýr og fjarkönnun) en seinni daginn í landshlutahópum. Á fundinum var svæðum sem talin eru vera undir álagi ferðamanna forgangsraðað og samræmdar vöktunaraðferðir og vísar til að mæla álag af mannavöldum á náttúruna voru ákvarðaðir.

Vinnustofan var skipulögð af verkefnisstjórn verkefnisins en hana skipa Rannveig Anna Guicharnaud, sem jafnframt er verkefnisstjóri verkefnisins hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, Olga Kolbrún Vilmundardóttir og Ingvar Atli Sigurðsson einnig hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir frá Náttúrustofu Norðausturlands kom einnig að skipulagningu vinnustofunnar en hún er fulltrúi náttúrustofa í verkefninu.

Þátttakendur í vinnustofu verkefnisins Rannveig Anna Guicharnaud á vinnustofu verkefnisins „Vöktun náttúruverndarsvæða“ 4.–5. febrúar 2020
Picture: Trausti Baldursson

Þátttakendur í vinnustofu verkefnisins „Vöktun náttúruverndarsvæða“ 4.–5. febrúar 2020.