Gullsnotra, nýfundinn slæðingur

11.05.2020
Slæðingarnir skógarsóley, Anemone nemorosa, og gullsnotra, Anemone ranunculoides, í Vaðlareitnum í Eyjafirði
Picture: Starri Heiðmarsson

Slæðingarnir skógarsóley, Anemone nemorosa, og gullsnotra, Anemone ranunculoides, í Vaðlareitnum í Eyjafirði

Nýverið fannst í Vaðlaskógi í Eyjafirði blómstrandi gullsnotra, Anemone ranunculoides, sem aldrei áður hefur verið skráð hér á landi. Það var fyrir tilstilli starfsmanns Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri, sem tekur þátt í keppninni „Hjólað í vinnuna“, að plantan fannst.

Þekkt er að þeir sem ganga eða hjóla veita umhverfi sínu alla jafna meiri athygli en akandi vegfarendur. Þannig rak hjólandi starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands augun í blómstrandi plöntur í Vaðlareitnum á heimleið sinni frá vinnu. Þar sem vorið er nýgengið í garð eru enn afar fáar íslenskar plöntur sem hafa hafið blómgun, helst vetrarblóm og vorperla, en greinilegt var að þessi blóm áttu ekkert skylt við þær tegundir. Við greiningu kom í ljós að um var að ræða tvær ólíkar tegundir, sem báðar eru slæðingar. Annars vegar er um að ræða skógarsóley, Anemone nemorosa, sem er algeng tegund á hinum Norðurlöndunum og sannkallaður vorboði þar. Hin tegundin, gullsnotra, hefur ekki verið skráð sem slæðingur hér á landi þó hún sé allnokkuð notuð í görðum og við ræktun. Önnur nöfn sem notuð eru um tegundina eru svo sem fagursóley, gullanimóna, gullsóley og gul skógarsóley.

Þessi afmarkaði fundur gullsnotru dugar tæplega til að skrá hana sem ílendan slæðing á landinu. Til að teljast ílendur slæðingur þarf fjölær plantna að hafa spírað og þroskast frá fræi í að minnsta kosti tvær kynslóðir eða fjölga sér kynlaust í að minnsta kosti 30 ár. Gullsnotra hefur hins vegar verið skráð í gagnagrunn Náttúrufræðistofnunar Íslands og er komin á vöktunarlista og verður fylgst með afdrifum hennar í Vaðlareitnum.