Miklar gróðurskemmdir eftir eld í Norðurárdal í Borgarfirði

03.06.2020
Birkiskógurinn (Hólmaskógur og Mjóengisskógur) sem brann í Norðurárdal 18.-19. maí 2020
Picture: Sigurður Kristinn Guðjohnsen

Birkiskógurinn (Hólmaskógur og Mjóengisskógur) sem brann í Norðurárdal 18.–19. maí 2020. Ljósmynd tekin 26. maí 2020.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið gróðurskemmdir í Norðurárdal í Borgarfirði eftir elda sem loguðu þar fyrir skömmu. Svæðið sem brann var 13,2 ha að flatarmáli, einkum birkiskógur sem óljóst er hve lengi verður að jafna sig.

Síðdegis þann 18. maí 2020 var tilkynnt um eld í skóglendi í Norðurárdal, vestan Norðurár, nokkru neðan við fossinn Glanna og rétt vestan Paradísarlautar. Á svæðinu á milli Grábrókarhrauns og Norðurár er gamalgróin birkiskógur sem heitir Mjóengisskógur, og norðar Hólmaskógur, og nýtur hann skjóls af hárri hraunbrúninni. Þegar eldurinn kviknaði var gróðursvörður mjög þurr eftir langa þurrkatíð en vindur var fremur hægur. Um 100 manns komu að slökkvistarfinu við afar erfiðar aðstæður því yfir mjög úfið hraun var að fara, auk þess sem skógurinn er þéttur og erfiður yfirferðar. Tekist hafði að slökkva eldinn um fjögurleytið aðfaranótt 19. maí. Líklegast þykir að kviknað hafi í af mannavöldum.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands fóru á staðinn þann 26. maí í þeim tilgangi að kortleggja útbreiðslu gróðureldsins og skoða skemmdir á gróðurfari. Mælingar sýna að svæðið er í heild 13,2 ha að flatarmáli, mestmegnis birkiskógur eða 11,3 ha. Einnig brann nokkuð svæði uppi á hraunbrúninni, meðal annars 1,1 ha hraunlendi (mosa- og lynghraunavist) með mosanum hraungambra ríkjandi, tæpur hálfur hektari syðst og um miðbik svæðisins var runnamýravist með gulvíði og gisnu birki og næst Norðurá brann tæpur hálfur hektari af graslendi. Fyrir utan brunna svæðið er skógur með fjölbreyttum undirgróðri, meðal annars gulvíði, sortulyngi, bláberjalyngi, krækilyngi, grösum og mosa og eru birkitrén um 2–5 m að hæð.

Skógurinn var illa útleikinn eftir brunann og gróðurskemmdir miklar. Stofnar stórra og gamalla birkitrjáa voru mikið brunnir og grennri tré og gulvíðirunnar orðin að svörtu spreki. Eina sem sást af sortulyngi voru sviðin laufblöð og kolaðar greinar. Krækilyng var brunnið upp til agna og mosi, bæði hraungambri og aðrir mosar í skógarbotninum, var ýmist horfinn eða sem kolsvart teppi af mjóum þráðum. Stofnar gamalla birkitrjáa voru þéttsetnir af fléttum sem víða höfðu brunnið illa. Tómt þrastarhreiður sást í brunnum stofni birkistrés en rétt utan brunasvæðisins lá þröstur á hreiðri með þremur eggjum.

Tíminn mun leiða í ljós hvernig birkiskógurinn jafnar sig eftir brunann. Ef rætur trjánna hafa ekki eyðilagst eru rótarskot líkleg til að vaxa upp. Eins er hugsanlegt að það lifni út úr einhverjum greinum trjánna eins og hefur sést hjá birki eftir bruna annars staðar. En einnig gæti töluverður hluti trjánna verið dauður. Hætt er við að mikið af undirgróðrinum sé eyðilagður og ekki margar tegundir sem ná að vaxa upp aftur af rót. Bláberjalyng vex reyndar kröftuglega upp aftur af rót eftir gróðurelda ef eldurinn nær ekki mjög djúpt og einnig grös og starir. En annað lyng á svæðinu, gulvíðir og mosi virðast hafa farið mjög illa. Votlendið sleppur mun betur við bruna en þurrari svæði.

Atburður sem þessi minnir á að lítill neisti getur orðið að miklu báli sem getur valdið miklum skaða á lífríki. Gróðurskemmdir eftir utanvegaakstur eða traðk eru mikil lýti á landi og skera í augu og skemmdir á mælikvarða sem hér um ræðir, þar sem margir hektarar lands brenna og eyðilegging blasir við, líklega af mannavöldum, eru einnig sláandi. Náttúrulegir gamlir birkiskógar eru verðmæt lífríki og hafa hátt verndargildi hér á landi. Að auki fylgir gróðureldum umtalsverð losun gróðurhúsalofttegunda.

Flatarmál gróðurelda í Norðurárdal í Borgarfirði 18.-19. maí 2020
Picture: Sigurður Kristinn Guðjohnsen

Kort af svæðinu sem brann í Norðurárdal 18.–19. maí 2020.

Stofnar birkitrjáa og undirgróður brunnu illa í gróðureldi í Norðurárdal 18.-19. maí 2020
Picture: Járngerður Grétarsdóttir

Stofnar birkitrjánna brunnu margir illa og undirgróðurinn einnig.

Grasnálar stinga upp kollinum eftir gróðureld í Norðurárdal 18.-19. maí 2020
Picture: Sigurður Kristinn Guðjohnsen

Grasnálar stinga kollinum upp úr sverðinum.

Tómt hreiður á brunna svæðinu eftir gróðureld í Norðurárdal 18.-19. maí 2020
Picture: Járngerður Grétarsdóttir

Tómt hreiður á brunna svæðinu.